135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda.

200. mál
[18:25]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Um þetta mál er það að segja að þessari söfnun er ekki lokið og átakinu ekki lokið og hefur verið boðað til fundar í Stokkhólmi nú um miðjan desember til að ræða niðurstöðu ákallsins. Ég vænti þess að dóms- og kirkjumálaráðuneytið muni eiga fulltrúa á þeim fundi og þar kynnumst við þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í þessu átaki sem er mikils virði að sjálfsögðu eins og alltaf þegar samtök af þessum toga láta til sín heyra og vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að vandi flóttamanna er mikill.

Það gefur hins vegar ranga mynd af þeirri starfsemi hér á landi sem lýtur að móttöku flóttamanna að segja að aðeins hafi verið tekið á móti einum því að tekið hefur verið á móti hópi fólks sem flóttamönnum hér á landi. Sérstök flóttamannanefnd starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins og hinn 27. október gaf hún út viðmiðunarreglur um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks, þá sem hafa fengið stöðu flóttamanna og þá sem hafa fengið hæli af mannúðarástæðum. Í reglunum er vísað til útlendingalaganna þar sem segir að Útlendingastofnun heimili hópum flóttamanna að koma til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda að fenginni tillögu Flóttamannaráðs Íslands. Síðan er farið yfir það í þessum viðmiðunarreglum sem settar hafa verið, með leyfi forseta:

„Hlutverk flóttamannanefndar er meðal annars að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa, hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku hópanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Nefndin skal enn fremur taka til athugunar aðstoð við þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Nefndin skal árlega gera ríkisstjórninni grein fyrir störfum sínum og leggur félagsmálaráðuneyti nefndinni til ritara.“

Síðan segir einnig í þessum reglum, með leyfi forseta:

„Að fenginni tillögu flóttamannanefndar og kostnaðaráætlun leggja félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra hverju sinni til við ríkisstjórn að tekið verði á móti tilteknum fjölda flóttafólks frá tilteknu landi eða löndum.“

Það er líka tekið fram í reglunum að flóttamannanefndin starfi í samvinnu við Flóttamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, og tillaga flóttamannanefndar til utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra um hvaðan flóttafólkið kemur hverju sinni skal ævinlega tekin í samráði við Flóttamannastofnun eins og hér segir. Síðan þarf að vera samráð við Útlendingastofnun sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og þar má vísa til þess sem hér segir, með leyfi forseta:

„Áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir um móttöku flóttamannahóps skal Útlendingastofnun fjalla formlega um hvert mál og staðfesta að ekki séu annmarkar á því að veita viðkomandi einstaklingum hæli á Íslandi“ — og síðan er vitnað í viðeigandi lagagreinar.

Ég tel að við höfum komið á laggirnar fyrirkomulagi sem dugi til að sinna þessum málum og síðan er það matsatriði hverju sinni í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvernig að málum er staðið og hvernig að framkvæmdinni er staðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda fer hverju sinni til þess ríkis þar sem flóttafólkið hefur fengið hæli og leggur mat á hvaða fjölskyldum og einstaklingum skuli boðið að setjast að á Íslandi. Nefndin vinnur í nánu samráði við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í dvalarlandi fólksins. Að ferð lokinni leggur sendinefndin tillögur sínar fyrir flóttamannanefndina sem síðan kynnir þær félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Í nefndinni eiga sæti eftir atvikum fulltrúar þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að flóttamannanefnd, fulltrúi Rauða kross Íslands og fulltrúi Útlendingastofnunar“ — en dóms- og kirkjumálaráðuneytið á aðild að flóttamannanefndinni.

Ég tel víst að þessi nefnd og allir sem að þessum málum starfa muni taka mið af þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir eftir að átakinu, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, lýkur og að brugðist verði við tilmælum, sem fram koma eftir að átakinu lýkur, á þann veg sem þessar reglur og lög mæla fyrir um.