135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

97. mál
[18:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa. En ákvarðanir um nánari tímasetningu eða útfærslu liggja ekki fyrir.

Hvað varðar upphæðir vegna innheimtu stimpilgjalda af lánum til húsnæðiskaupa þá er ekki hægt að aðgreina það nákvæmlega frá stimpilgjöldum á öðrum skjölum nema með því að fara út í nokkurs konar nálgun sem ég ætla ekki nákvæmlega að að lýsa hérna. En með þeirri nálgun er hægt að fara aftur til 1. maí 2004. Þá kemur fram að frá 1. maí til 31. desember 2004, voru 1.353 millj. kr. innheimtar vegna stimpilgjalda af húsnæðislánum en samtals stimpilgjöld af öllum skjölum vegna fasteigna 3.783 millj. kr. Á árinu 2005 voru samsvarandi tölur 3.205 millj. kr og 6.991 millj. kr. Á árinu 2006 voru það 2.162 millj. kr. og 5.044 millj. kr. Frá 1. janúar til 1. október 2007 eru það 2.222 millj. kr. og 4.893 millj. kr.

Hvað varðar fjölda aðila sem greiddu stimpilgjöld þá voru það, með sömu nálgun, frá 1. maí til 31. desember 2004, 13.803 aðilar. Á árinu 2005 24.334, á árinu 2006 16.814 og frá 1. janúar til 1. október 2007 16.257.