135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfshópur ráðherra um loftslagsmál.

199. mál
[19:10]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmanni kann að vera kunnugt um þá gerði ég grein fyrir því á þingi í gær hverjar væru áherslur íslenskra stjórnvalda varðandi þingið á Balí sem nú er hafið. Mér er auðvitað ljúft og skylt að svara því hér og fara yfir það hvernig málið hefur verið lagt upp af ráðherrahóp um samningsmarkmið í loftslagsmálum og síðan af ríkisstjórn Íslands og það var gert kunnugt á hinu háa Alþingi í gær.

Eins og hv. þingmaður og fyrirspyrjandi veit fullvel þá snýst fundurinn núna á Balí um að ná í raun samkomulagi um að semja, að ná ríkjum heims að borðinu og ná pólitískri samstöðu að semja um annað skuldbindingartímabil við loftslagssamninginn á næstu tveimur árum. Þetta er upphaf samningaferils sem tekur tvö ár og endar vonandi vel í Kaupmannahöfn árið 2009.

Hið stóra pólitíska verkefni er sem sagt það að ríki heims, ekki síst þau sem auðug eru og flokkast til iðnríkja og svokölluð viðauka 1 ríki í Kyoto-bókuninni, sýni það með ótvíræðum hætti á fundinum í Balí að þau séu tilbúin til að leggja sitt af mörkum til þess að í fyrsta lagi að halda hlýnun lofthjúpsins innan við 2 gráður á Celsíus miðað við iðnbyltingu, þ.e. að hlýnunin fari ekki yfir 2 gráður í þessari öld. Það þarf líka að sýna það í verki og með skýrri framsetningu að þessi sömu ríki séu tilbúin til að draga mikið úr losun heima fyrir á næstu 10 árum eða svo. Yfirleitt er miðað við 2020 og þá eru menn auðvitað að tala um að þegar nýtt skuldbindingatímabil tekur við árið 2013 þá verði það jafnvel í 7 ár, gæti orðið í 5 ár, og þá reyni verulega á í samdrætti og ekki síst þeirra ríkja sem losa mest.

Þetta eru tvö meginmarkmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér og ákveðið að setja fram á fundinum til þess m.a. að sýna á spilin ef þannig má að orði komast, og hvetja önnur iðnríki til að gera slíkt hið sama með því að sýna þetta. Við erum auðvitað að gera nákvæmlega sömu hluti hér og ríki Evrópusambandsins ætla að gera og norsk stjórnvöld sem hafa sett fram samningsmarkmið sem ég reyndar hef því miður ekki í höndunum hér og nú en sem eru mjög áþekk þeim sem ríkisstjórn Íslands samþykkti og kynnti í gær. Bara til að benda á það er umhverfisráðherrann í Noregi, Erik Solheim, vinstri grænn, flokksbróðir hv. þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Þetta er verkefnið á Balí og ég hef áður lýst því og lýsti því í viðtölum í gær að það er ekki einu sinni verið að ræða um svokallað íslenskt ákvæði á Balí. Það er ekki uppi á borði. Um það er ekki spurt. Það mun enginn hafa frumkvæði að því að ræða það þar. Verkefnið á Balí er að sjá til þess að það verði yfirleitt samið. Það er aðalverkefnið af því að ef það mistekst á aðildarríkjaráðstefnu loftslagssamningsins á Balí að ná samkomulagi um að það verði annað skuldbindingatímabil þá geta sérstakir áhugamenn um hið svokallaða íslenska ákvæði bara gleymt því að það lifi áfram. Forsenda þess að það sé eitthvað um að semja er að það verði samið um annað skuldbindingatímabil.

Það er rétt sem hv. þingmaður hefur bent á og ég hef sagt ítrekað síðustu sex mánuði, ég hef aldrei verið fylgjandi sérstökum undanþágum í þessum samningi og sú skoðun mín hefur ekkert breyst. Verkefnið er að ná almennum ramma, almennum reglum, almennu samkomulagi sem sem flestir geta fylgt en sem líka setur þyngri byrðar á herðar þeirra þjóða sem losa mest. Það verður ekki fram hjá því litið að það verður krafan og það er krafan á Balí. Við þurfum að geta svarað þeirri kröfu og við verðum að geta gert það án þess að láta aðra hluti þvælast fyrir okkur í þeirri umræðu.