135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.

241. mál
[19:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar embætti veiðistjóra var stofnað sem sjálfstætt embætti og flutt norður á Akureyri, sem kom til framkvæmda 1995, ef ég man rétt, var það að sjálfsögðu jákvætt í þeim skilningi að viðleitni væri í gangi til að dreifa opinberum störfum um landið og staðsetja þau víðar en í aðalþjónustumiðstöðinni í höfuðborginni eða nágrenni. Það varð að vísu dálítill hvellur um það mál á sínum tíma en hann er ekki efni fyrirspurnarinnar heldur hitt að þær fréttir bárust allt í einu í haust að nú gengi þetta í raun og veru til baka í vissum skilningi þess orðs, þ.e. að veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar, sem spratt upp úr veiðistjóraembættinu, og verið hefur á Akureyri, yrði lagt niður um áramótin þegar nýtt skipurit Umhverfisstofnunar tæki gildi.

Nú kunna að sjálfsögðu að vera rök í því máli sem skylt er að hlýða á og varða skipulagslega þætti og jafnvel mannlega þætti sem sjálfsagt er að taka tillit til. En hinu verður augljóslega ekki í móti mælt að skilaboðin voru ekki heppileg — þar nyrðra munar um hverja stofnun og hvert starf og hvern sjálfstæðan póst í því þekkingarsamfélagi sem leitast hefur verið við að byggja upp í tengslum við Háskólann á Akureyri og með því að efla ýmsa þjónustu opinberra stofnana. Það urðu mörgum mikil vonbrigði að þarna væru allt í einu að ganga til baka áherslur sem hefðu verið uppi.

Nú er það þannig að einnig hjá þessari ríkisstjórn er að finna í stjórnarsáttmála og áhersluatriðum ýmislegt fallegt um það að eftir sem áður eigi að vinna að þessum hlutum. Tel ég því rétt og eðlilegt að ráðherra viðkomandi málaflokks svari fyrir það hér hverju það sæti að starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Akureyri, áður embætti veiðistjóra, verði flutt til Reykjavíkur um áramót? Og í öðru lagi hvort það sé hluti af viðleitni ríkisstjórnarinnar til að dreifa opinberri þjónustu um landið og skipuleggja stjórnsýsluna m.a. þannig að auglýsa störf óháð staðsetningu, samanber kafla stjórnarsáttmálans um að landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði?

Maður gengur að sjálfsögðu út frá því að umhverfisráðuneytið hljóti fyrir sitt leyti, eins og önnur ráðuneyti, að vera bundið af þessari stefnu og eiga að vera þátttakandi í henni. Því er eðlilegt að spyrja hvernig þetta tvennt fari saman, þessi ákvörðun um að færa veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar til Reykjavíkur og hin yfirlýsta stefna?