135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.

241. mál
[19:23]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Akureyri. Þannig er að Umhverfisstofnun hefur á undanförnum missirum gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Gerð var stjórnsýsluúttekt á stofnuninni árið 2006 og nýr forstjóri hefur unnið á grundvelli hennar að skipulagsbreytingum.

Það liggur fyrir að í stað sex fagsviða í núgildandi skipuriti mun starfsemi stofnunarinnar nú skiptast í tvö fagsvið og þrjú stoðsvið. Þessari breytingu er ætlað að styrkja starfsemi stofnunarinnar í samræmi við ábendingar frá embætti ríkisendurskoðanda, samanber stjórnsýsluúttektina sem ég nefndi. Þetta þýðir að embætti veiðistjóra er fellt undir annað svið, í raun og veru er verið að fækka yfirmannsstöðum á stofnuninni svo að það sé bara sagt í einni setningu.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti í máli sínu var embætti veiðistjóra flutt norður 1995. Það varð síðan við stofnun Umhverfisstofnunar 1. janúar 2003 eitt af fagsviðum stofnunarinnar með aðsetur á Akureyri. Nú fellur veiðistjórnunarsvið undir nýtt fagsvið stofnunarinnar, sem er náttúru- og dýraverndarsvið, og það mun skiptast í tvær deildir og annar deildarstjóri á þessu fagsviði verður staðsettur á Akureyri. Það mun þýða að verkefnin á Akureyri eru fjölbreyttari. Ekki er með þessu verið að taka ákvörðun um að fækka störfum á Akureyri þó að sá starfsmaður sem gegnt hefur embætti veiðistjóra hingað til færi sig suður og fari í önnur störf hjá sömu stofnun. Það er mikilvægt að taka það fram.

Ég vil í tilefni af þessari fyrirspurn segja að ég vil mjög gjarnan beita mér fyrir því að störfum á vegum umhverfisráðuneytis, og ekki síst á vegum stofnana ráðuneytisins, fjölgi á landsbyggðinni, líka á Akureyri. Þar eru skrifstofur frá Umhverfisstofnun og frá Náttúrufræðistofnun Íslands, þar er stofnun Vilhjálms Stefánssonar, þar eru skrifstofur CAFF og PAME og ég tel fulla ástæðu til þess að styrkja þá einingu með þeim hætti sem hægt er. Til þess þarf auðvitað fleiri störf og meiri fjármuni. Það fer ekkert á milli mála.

Ég vil líka taka fram í þessu sambandi, vegna þess að vísað var í stjórnarsáttmálann og störf án staðsetningar, að það er fullur vilji beggja stjórnarflokka og allra ráðherra að fara að þeirri samþykkt. Það sem þarf að gera er að skilgreina störfin og búa til verklag þannig að það sé ljóst í öllum ráðuneytum hvað þetta þýði og að forstjórum stofnana ráðuneytanna sé það líka ljóst.

Ég hygg að þetta gæti valdið grundvallarbreytingu á því hvar störf á vegum ríkisins eru staðsett og geti þá vonandi stemmt stigu við sjálfkrafa fjölgun, að því er virðist, starfa á suðvesturhorni landsins. Þó að ég búi á suðvesturhorni landsins tel ég fulla ástæðu til að ríkið reyni að gera sitt til að stuðla að jafnvægi í þessu máli.

Mig langar að gera það hér að umræðuefni að veiðistjórinn var færður norður 1995 og af því varð nokkur hvellur þó það sé ekki tilefni þessarar umræðu. Landmælingar voru færðar til Akraness, af því varð líka mikill hvellur eins og hv. þingmenn muna. Veðurstofan rekur starfsstöð á Ísafirði. Við erum að stofna á næsta ári nýja ríkisstofnun úti á landi, það er Vatnajökulsþjóðgarður. Henni fylgir mikil atvinnuuppbygging, norðan, austan og sunnan við Vatnajökul. Og um áramótin koma til umhverfisráðuneytisins Landgræðslan og Skógrækt ríkisins, sem eins og menn vita eru báðar staðsettar úti á landi, og engin áform um að færa þær suður. Ég tel fjölmörg tækifæri í spilunum til þess að fjölga störfum á vegum ráðuneytis og (Forseti hringir.) stofnana úti á landi.