135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.

241. mál
[19:31]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég ítreka að ég tel vera mýmörg tækifæri á næstunni til að fjölga störfum á landsbyggðinni varðandi það sem heyrir undir umhverfisráðuneyti og stofnanir þess. Ég tek undir orð hv. þingmanns að fleira þarf en útibúavæðingu, eins og það var orðað.

Vatnajökulsþjóðgarður verður gríðarlega mikilvæg ríkisstofnun. Áhrifasvæði hennar verður á Norður-, Austur- og Suðurlandi og miklu máli skiptir að stofnun þjóðgarðsins sé nýtt til atvinnuuppbyggingar og styrkt með öllum hætti og þau störf verða á staðnum. Það er engin spurning. Það sama á auðvitað við landgræðslu og skógrækt, sem ég talaði um, sem eru að færast til umhverfisráðuneytisins um áramót ef allt gengur eftir. Það eru öflugar stofnanir í sinni sveit og þar eiga þær að vera.

Við þurfum einnig að vinna eftir ákveðnum ferlum og miklu máli skiptir að við skilgreinum störf og staðsetningar. Farið er í gegnum verkefni í ráðuneytunum og mikilvægt er að hægt sé að vinna eftir fyrir fram ákveðnum leikreglum þannig að menn viti að hverju þeir ganga því að verið er að skapa ný störf eða jafnvel stofna nýjar stofnanir.