135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eftirlit með ökutækjum í umferð.

123. mál
[19:37]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur beint til mín eftirfarandi spurningum og hér eru svörin við þeim:

1. Hvernig er háttað boðun og eftirliti með því að ökutæki séu færð til skoðunar? Því er fyrst til að svara að eigandi fær ekki sérstaka boðun um að mæta í skoðun. Í reglugerð um skoðun ökutækja, nr. 378/1998, er kveðið á um að skoðanaskyld ökutæki skuli færa reglulega til aðalskoðunar í þeim mánuði sem í röðinni samsvarar síðustu tölunni í skráningarmerki ökutækis. Almenna reglan er að ökutæki skal færa til aðalskoðunar á þriðja ári eftir að ökutæki er skráð í fyrsta sinn en síðan á fimmta ári og árlega úr því, tiltekin ökutæki sem öll eru atvinnutæki nema létt bifhjól sem færa skal til skoðunar árlega.

2. Hvernig er háttað eftirliti með bifreiðum sem ekki eru færðar til skoðunar? Það er fyrst og fremst verkefni lögreglunnar að hafa eftirlit með að fylgst sé með reglum um skyldu eigenda ökutækis til að færa það til skoðunar. Til þess að fylgjast með því hvort ökutæki hafi verið fært til skoðunar hefur lögreglan rafrænan aðgang að ökutækjaskrá þar sem slíkar upplýsingar liggja fyrir. Umferðarstofa sendir reglulega upplýsingar úr skránni til lögreglustjóra í landinu. Mjög misjafnt er eftir landshlutum hversu vel lögreglan fylgist með því að óskoðuð ökutæki séu færð til skoðunar og fer það aðallega eftir því hvort mannafli er fyrir hendi til að sinna þessu verki.

Almenna reglan er sú að lögreglan límir sérstakan boðunarmiða yfir skoðunarmiða ökutækis sem vanalegt hefur verið að færa til skoðunar þar sem fram kemur sá frestur sem gefinn er til að færa ökutækið til skoðunar, hann er að hámarki sjö dagar. Samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja getur lögreglan tekið skráningarmerki af ökutæki ef það er ekki fært til skoðunar þegar þess er krafist. Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar og starfsmenn skoðunarstöðva hafa einnig komið að eftirliti með skoðun sem fram fer á ökutækjum sem lögreglan hefur stöðvað. Vegaskoðun hefur reynst vel og er beitt í vaxandi mæli.

3. Eru eigendur óskoðaðra og ótryggðra ökutækja sektaðir sjálfkrafa ef þau eru ekki færð til skoðunar? Það er ekki sektað fyrir vanrækslu, þ.e. að færa ekki ökutæki til skoðunar. Samkvæmt 108. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 má leggja á gjald ef brotin er sú regla að færa skuli ökutæki reglulega til skoðunar en innheimta gjaldsins hefur reynst erfið í framkvæmd, tímafrek og dýr m.a. vegna þess að í fjölda mála hefur þurft að krefjast uppboðs á ökutæki til fullnustu gjaldsins. Það hefur leitt til þess að því ákvæði hefur ekki verið beitt undanfarin ár en þess í stað hafa skráningarmerki verið tekin af ökutæki vegna vanrækslu á að færa það til skoðunar. Í reglugerð um sektir er kveðið á um að það varði frá 10–30 þús. kr. sekt ef vátryggingarskyldan er vanrækt. Þess má einnig geta að samkvæmt reglugerð lögmætrar ökutækjatryggingar skal lögreglustjóri hlutast til um að skráningin sé tafarlaust tekin af ökutækjum þegar vátrygging ökutækis er fallin úr gildi og að öðrum tilteknum forsendum gefnum.

4. Telur ráðherra þörf á átaki til að taka óskoðuð og ótryggð ökutæki úr umferð? Það er engum blöðum um það að fletta að mjög brýnt er og í þágu aukins umferðaröryggis að eigendum og umráðamönnum ökutækja sé veitt aðhald þannig að þeir fylgi þeim reglum sem gilda um vátryggingu og skoðun. Dugi ekki aðrar ráðstafanir hlýtur það að vera þrautalendingin að taka ökutæki úr umferð og banna notkun þess. Sá þáttur í starfi lögreglunnar hefur óneitanlega setið á hakanum þegar miklar annir eru og önnur verkefni eru sett í forgang eins og áður hefur verið komið að.

Fyrir skoðun ökutækis greiðir eigandi þess gjald til skoðunarstofu. Til athugunar er að leggja sérstakt aukagjald sem unnið er í ríkissjóð á þá sem ekki mæta á tilsettum tíma með ökutæki í skoðun. Gjaldið er hugsað sem eins konar viðurlag vegna vanrækslunnar. Það er hvatning til eigandans að bæta ráð sitt. Gjaldið ber að greiða þegar mætt er með ökutæki í skoðun. Dugi sú leið ekki mundi gjaldið hækka verulega og verða sett í innheimtu. Jafnframt yrðu gerðar ráðstafanir til að taka skráningarnúmerin af ökutækinu.

Ná þarf til ökutækja í umferðinni sem eru óskoðuð og í lélegu ástandi. Því er stefnt að því að efla vegaeftirlit verulega með aukinni samvinnu lögreglunnar, eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og skoðunarstöðva. Þegar er komin nokkur reynsla á slíka samvinnu í átaksverkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum og lofar hún góðu. Fyrir dyrum stendur heildarendurskoðun umferðarlaga. Þá verður sérstök áhersla lögð á að tryggja viðhlítandi úrræði í þeim tilvikum að ökutæki í umferð eru óvátryggð og eða ekki færð til lögmætrar skoðunar. Lögð verður áhersla á að koma upp skilvirku kerfi sem tryggir að einungis vátryggð og skoðuð ökutæki verði í umferð. Skoða verður hvernig þeim málum er háttað í nágrannalöndum okkar og verður síðan besta leiðin valin til þess.