135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eftirlit með ökutækjum í umferð.

123. mál
[19:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir skýr svör. Staðfest er að enginn er boðaður með ökutæki í skráningu og að eftirliti með því að þau séu færð til skoðunar samkvæmt lögum og reglum er mjög ábótavant því að það er verkefni lögreglunnar sem hvorki hefur til þess mannafla né aðstöðu til að sinna því. Í svari ráðherrans var staðfest það sem ég sagði áðan að því miður er fjárhagslegur hvati í kerfinu til að færa ökutæki ekki til skoðunar með því að menn þurfa ekki einu sinni að borga árlegt gjald, hvað þá fá sekt eða borga sérstakt gjald fyrir að trassa skoðun.

Ég fagna því að hjá ráðherra kom fram að við heildarendurskoðun á umferðarlögum mun sérstaklega verða tekið á því atriði. Það er mjög mikilvægt vegna þess að hér er fyrst og fremst um umferðaröryggismál að ræða. Þá er mjög mikilvægt að séð verði til þess að viðhlítandi úrræði séu til að koma óskoðuðum bílum og ótryggðum af götunum. Ég tel að í rauninni sé þörf á sérstöku átaki nú til að fækka slíkum ökutækjum í umferðinni og mér þykir miður að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tekið undir það sem spurt var sérstaklega um í 4. lið fyrirspurnarinnar. Ég vænti þess að þegar umferðarlögin koma til umræðu í heildarendurskoðun munum við fá tækifæri til að ræða það aftur.