135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fjöldi óskoðaðra og ótryggðra ökutækja í umferð.

124. mál
[19:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrir réttu ári sendi lögreglan í Árnessýslu frá sér tilkynningu vegna þriggja banaslysa sem orðið höfðu í umdæmi hennar árin tvö á undan. Í öllum þeim slysum áttu í hlut bifreiðar sem hefðu ekki átt að vera á götunni að mati lögreglu, voru ekki í viðunandi ástandi en höfðu þó fengið skoðun á viðurkenndri skoðunarstöð.

Í einu tilfellinu lést ungur Selfyssingur í árekstri við yfir 20 ára gamla jeppabifreið sem fór í tvennt við áreksturinn. Yfirbyggingin hreinlega losnaði af undirvagninum og var skoðunarsaga þessa bíls með endemum. Á árinu 2003 höfðu verið gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við ástandið, m.a. styrkleikamissi en í kjölfarið fékk sú bifreið þó athugasemdalausa skoðun á annarri skoðunarstöð. Það vekur spurningar um hvort jafnræðis og samræmis sé gætt milli skoðunarstöðva og milli landshluta, spurningar um hvað ræður. Eins og ég sagði áðan er það stór spurning hvort samkeppni sé boðleg í öryggiseftirliti sem þessu.

Ég verð því miður að segja að að mati þeirra sem gerst þekkja eru hættulegustu bílarnir síðast teknir til skoðunar. Í fjölmiðlaumræðu í kjölfar viðtala við foreldra þessa pilts sem ég nefndi áðan kom m.a. fram að síðastliðin fimm ár voru 13 óskoðuð ökutæki viðriðin banaslys. Óskoðaðir bílar lentu í 4.500 óhöppum og slysum á þessu fimm ára tímabili. Það er auðvitað ljóst að eitt banaslys sem rekja má til lélegs ástands bifreiðar er einu banaslysi of mikið. Mikilvægt er að þessar bifreiðar séu teknar af götunum.

Ég hef af þessu tilefni spurt hæstv. samgönguráðherra hversu mörg óskoðuð og ótryggð ökutæki séu í umferð hér á landi. Hversu mörg óskoðuð ökutæki og ökutæki með bráðabirgðaskoðun hafa tengst banaslysum undanfarin fimm ár, flokkað eftir umdæmum? Hverjar telur ráðherra vera skýringar á fjölda óskoðaðra og ótryggðra bifreiða í umferðinni?