135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fjöldi óskoðaðra og ótryggðra ökutækja í umferð.

124. mál
[19:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör og fagna því að við erum greinilega mjög sammála um hve brýnt er að taka á þessum málum. Spurningin er ekki um hversu oft ökutæki eru færð til skoðunar heldur að þau séu skoðuð yfir höfuð. Það er mjög mikilvægt, eins og fram kom í máli ráðherrans, að sérstaklega sé hugað að eldri bílum í þessu sambandi vegna styrkleikamissis af völdum ryðs og einnig að bílum sem hefur verið breytt. En því miður er mikið um slíka bíla í umferð.

Það er dapurlegt að fá það staðfest að tíu óskoðuð ökutæki skuli tengd banaslysum síðastliðin fimm ár og þar af eitt á yfirstandandi ári. Við megum ekki láta þetta halda áfram á næsta ári. Ég treysti því að ráðherra muni — ég heiti atbeina okkar þingmanna til þess og væntanlega ekki bara vinstri grænna — gera breytingar á umferðarlögunum til að styrkja eftirlitið og koma hættulegum bílum af götunum.

Mér er kunnugt um áhuga og frumkvæði sýslumannsins í Bolungarvík um að taka á sektarboðum og rukkun á gjaldi fyrir þá bifreiðaeigendur sem eru á svokölluðum skróplista hjá Umferðarstofu. Ég vil að lokum segja að ég held að það þurfi að efla hlutverk Umferðarstofu í þessum málum og taka til endurskoðunar þá einkavæðingu sem fór fram 1997 í bifreiðaskoðun. Ég held að hún hafi ekki verið til heilla.