135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fjöldi óskoðaðra og ótryggðra ökutækja í umferð.

124. mál
[19:55]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa umræðu. Þessar tvær fyrirspurnir hafa verið mjög góðar og snúið að málum sem sannarlega er þörf á að ræða miðað við þau svör sem hér hafa verið veitt. Ég er sammála því að við megum ekki láta þetta vera svona öllu lengur. Þetta er vaxandi vandamál og þarf að taka á því vegna þess að þetta gengur ekki að óskoðuð ökutæki eða ótryggð séu svo mikið í umferð sem raun ber vitni.

Hv. þingmaður heitir á mig og þingheim að breyta þessu og laga sem fyrst. Ef ég man rétt er það 108. gr. umferðarlaga sem þarf að breyta vegna þessa. Þá er spurningin hvort taka eigi, og það hef ég vissulega hugleitt, strax í gegn breytingu á þeirri grein með tilliti til þess sem ég sagði áðan, að heildarendurskoðun allra umferðarlaga er hafin. Á að gera þetta strax eða eigum við að bíða eftir endurskoðun þeirra laga?

Ég get tekið undir það og fagnað ef þingheimur og fulltrúar allra flokka vilja taka málið fljótt og vel í gegn. Þá skal ég hugleiða það mjög vel. Við þurfum að lagfæra þetta og það getur ekki gengið, eins og hér hefur komið fram, að síðustu fimm ár tengist samtals tíu ökutæki banaslysum, með tilliti til skoðunar, og þar af sjö óskoðuð, ef ég les þetta rétt.

Ég þakka fyrir umræðuna um þetta þarfa mál.