135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[20:09]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðum um hana. Auðvitað er mjög vandratað í þessu. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason bendir á er reksturinn hjá Íslandspósti í Stykkishólmi í mjög harðri samkeppni við bókabúð á staðnum (Gripið fram í: Í Stykkishólmi og á Húsavík.) og þá spennir maður upp eyrun. Ég vil svo segja annað, það kemur hinum megin frá að á fjölmörgum stöðum á landinu þar sem Íslandspóstur er með svona rekstur er mikil ánægja meðal fólks. (Gripið fram í.) Það er dálítið (Gripið fram í.) vandratað í þessu og það er líka vandratað ef við hv. þm. Jón Bjarnason erum orðnir algerlega sammála. (JBjarn: Já …) Ég … (Gripið fram í.) Nei, nei, það er sagt í gríni, við hófum okkar þingmannsferil og pólitísk afskipti af landsmálum í framboði fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi árið 1999, vorum þar saman í prófkjöri þó að leiðir hafi skilið eftir það.

Eins og ég segi er vandratað um þetta og auðvitað verður Íslandspóstur að ganga hægt um gleðinnar dyr hvað þetta varðar. Um fjárhagslega aðskilnaðinn er þetta þó klárt, en það er eilíft deiluefni þegar fyrirtæki er í 100% eigu ríkisins hvað gera skuli. Þegar ég var viðstaddur opnun á pósthúsinu á Húsavík í þessum nýju byggingum eins og hv. þingmaður fjallaði um, glæsilegum byggingum sem Íslandspóstur er að byggja þar upp, hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að geta sent tölvuskeyti til Íslandspósts á Húsavík með fundarauglýsingu um næsta fund sem ég mundi halda, þeir mundu prenta hana út og dreifa samdægurs. Það er flott og fín þjónusta (Forseti hringir.) en ég vona að hún kollsteypi ekki prentsmiðjunni á staðnum.