135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

framkvæmdir á Vestfjarðavegi.

246. mál
[20:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Herdís Þórðardóttir beinir til mín fyrirspurn um Vestfjarðaveg sem er þannig:

„Hvenær verða boðnar út eftirfarandi framkvæmdir á Vestfjarðavegi og hvenær er áætlað að þeim ljúki: a. frá Þorskafirði í Kollafjörð og b. milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar?“

Við fyrri spurninguna, þ.e. frá Þorskafirði í Kollafjörð er svar mitt þetta: Vegagerðin gerir ráð fyrir í áætlunum sínum að hönnun og gerð útboðsgagna ljúki í vor. Tæknilega ætti þá að vera hægt að hefja framkvæmdir næstkomandi sumar. Gangi það eftir er reiknað með verklokum í lok sumars 2010. Hins vegar verður að gera fyrirvara um hversu langan tíma tekur að ná samningum við landeigendur. Eins hversu langan tíma eignarnámsferlið tekur náist ekki samningar við landeigendur. Þetta eru þeir þættir sem Vegagerðin hefur ekki fulla stjórn á.

Einnig verður að gera fyrirvara um niðurstöðu dómsmáls sem höfðað hefur verið til ógildingar á úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmd þessi er frá Þórisstöðum í Þorskafirði, um Teigsskóg, Hallsteinsnes, yfir Djúpafjörð, um Grónes, yfir Gufufjörð, um Melanes og fyrir Skálanes í Kollafjörð. Hluti framkvæmdarinnar er einnig tenging af Hallsteinsnesi að Djúpadal í Djúpafirði.

Varðandi b-liðinn, þ.e. milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar, er svar mitt þetta: Stefnt er að útboði á kaflanum frá Þverá í Kjálkafirði að Þingmannaá í Vatnsfirði í vor. Um er að ræða um það bil 15 kílómetra kafla. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í sumar og ljúki haustið 2009. Nýr vegur á þessum kafla mun að mestu verða á sama stað og núverandi vegur. Vegagerðin reiknar ekki með að þessi framkvæmd verði matsskyld. Framkvæmdin verður hins vegar kynnt Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Fjárveiting er til verksins, á árinu 2008 og 2009, 300 millj. kr. hvort ár eða samtals 600 millj. kr. Er þetta ein af flýtiframkvæmdum sem ríkisstjórnin ákvað 10. júlí síðastliðinn sem mótvægisaðgerð vegna aflabrests.

Unnið er að undirbúningi vegna mats á umhverfisáhrifum fyrir kaflann úr Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Núverandi lengd kaflans er um 32 kílómetrar en gert er ráð fyrir að stytta megi veginn á nokkrum stöðum. Ekki liggur enn fyrir hvar það gæti orðið en til greina kemur að það verði í Mjóafirði, á Litla-Nesi og í Kjálkafirði. Ekki liggur fyrir tímasetning um það hvenær framkvæmdir við þann kafla geta hafist.

Ég vil aðeins bæta við, virðulegi forseti, af því ég á smátíma eftir, að ég átti þess kost fyrr í haust að fara á fund á Patreksfirði, ásamt hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, mjög fjölmennan fund sem eingöngu snerist um samgöngumál. Hann var afar fróðlegur og vel sóttur. Þegar ég var að á leiðinni þangað, akandi, má segja að það hafi eiginlega verið vitlaust veður. Ég hugsaði með mér að eins og umferðin um Hjallahálsinn og Ódrjúgshálsinn væri, eins og hv. þingmaður gerði hér að umræðuefni, þá er vegurinn þar sannarlega farartálmi. Oft þurfti að stoppa og bíða þar sem sá varla fram á húddið á bílnum og krossleggja fingur og vonast til þess eins að enginn kæmi nú á fullri ferð framan eða aftan á bílinn.

Hér er svo sannarlega um þörf og brýn verk að ræða ásamt öðrum verkum á þessari leið sem ég hef gert að umtalsefni. Ég er auðvitað ákaflega stoltur af því að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að flýta framkvæmdum sem þarna er fjallað um og auðvitað eru önnur verkefni þarna eins og seinni kaflinn, 32 kílómetra kaflinn sem við getum ekki sagt um hvenær verður. Inn í þetta blandast auðvitað líka þverun Þorskafjarðar sem sem betur fer er búið að fara í umhverfismat, þökk sé fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra fyrir að það hafi farið í gegn.

Ég vil svo segja að þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar þá komu drög að fréttatilkynningu frá Vegagerðinni þar sem talað var um hvenær væri áætlað að þessum verkum lyki og þá var sagt, sem mér finnst ákaflega flott svar í raun og veru, en segir allt um vegina hvað þeir eru slæmir: Að árið 2009 og 2010 verði þessir vegir komnir í nútímalegt horf.