135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

framkvæmdir á Vestfjarðavegi.

246. mál
[20:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og það sem hefur verið lagt inn í þær. Þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa talað um hvort þarna væri um að ræða verstu eða allra verstu vegi landsins.

Ég held að ég geti tekið undir það að þetta séu allra verstu vegir á Íslandi. Vegleysur ætti kannski frekar að kalla þá. Það er nú bara þannig. Það eru mörg ár síðan hæstv. forseti lýðveldisins var á ferð um vegina í Vestur-Barðastrandarsýslu og hafði stór orð um slæmt ástand þeirra, ég man ekki hvaða orð hann notaði en það eru mörg ár síðan það var.

Það er rétt sem hv. þm. Herdís Þórðardóttir segir, og ég tók eftir því á fundinum á Patreksfirði hvað fólk var ánægt með það sem þar var verið að gera, flýtiframkvæmdir ríkisstjórnarinnar á vegum þarna. Einnig að haldið verði áfram með þá framkvæmd sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, þ.e. þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar og þá framkvæmd alla. Hún er í þeim farvegi sem ég lýsti áðan.

Ég tek heils hugar undir það og fagna því hversu víðtækur stuðningur er við þessa framkvæmd. Þingmenn úr öllum flokkum tóku eftir því og ég er stoltur af því að fylgja eftir þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar og það verður gert.