135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

tæknifrjóvganir.

239. mál
[20:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn en hv. þingmaður hefur beint til mín nokkrum spurningum um tæknifrjóvganir.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hversu mörg pör hafi farið í tæknifrjóvgunarmeðferð hjá ART Medica frá og með árinu 1991. Því er til að svara að frá nóvember 1991 til nóvember 2007 hafa verið framkvæmdar 4.595 glasafrjóvganir og af þeim 1.608 smásjárfrjóvganir frá 1997. Af þessum glasafrjóvgunum voru gerðar 4.123 svokallaðar fósturfærslur, þ.e. settir upp fósturvísar. Þess ber að geta að frá árinu 1991 til 2004 fóru þessar aðgerðir fram á glasafrjóvgunardeild Landspítala en síðan tók fyrirtækið ART Medica til starfa og hefur það annast þetta frá árinu 2004.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hver árangurinn hafi verið. Yfirleitt er árangur af þessum aðgerðum gefinn upp sem fjöldi klínískra þungana, þ.e. að fóstur greinist með hjartslátt við ómskoðun eftir svokallaða fósturfærslu. Af þessum heildarfjölda, 4.123 fórsturfærslna, voru 1.683 klínískar þunganir sem telst vera um 40,8% árangur. Ef tekinn er saman fjöldi fæddra, þ.e. einburar, tvíburar og þríburar, fæddust á þessu tímabili 1.683 börn eftir tæknifrjóvganir.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hver meðalaldur kvenna sem fóru í meðferð hafi verið og því er til að svara að hann var 33 ár.

Í fjórða lagi spyr þingmaðurinn um biðlista í dag. Samkvæmt upplýsingum frá ART Medica eru engir biðlistar eftir meðferð en venjulegur undirbúningstími fyrir meðferð er á bilinu 1–3 mánuðir.

Í fimmta lagi spyr hv. þingmaður um kostnað við meðferðir ART Medica frá og með árinu 2004, sundurliðað eftir árum og meðferðarúrræðum. Einnig er spurt um framlög ríkisins til málaflokksins. Því er til að svara ef við byrjum á glasafrjóvgununum að árið 2004 var heildarkostnaðurinn 7 milljónir 265 þúsund og hlutdeild ríkisins 2 milljónir 951 þúsund og 600 kr. Árið 2005 var heildarkostnaður 38 milljónir 855 þúsund og hlutdeild ríkisins 19,4. Árið 2006 var heildarkostnaður 44,8 milljónir og hlutdeild ríkisins 21 og árið 2007 var heildarkostnaðurinn tæplega 53 milljónir og hlutdeild ríkisins 24,5.

Ef við förum út í smásjárfrjóvganirnar var heildarkostnaðurinn árið 2004 11,4 milljónir en hlutdeild ríkisins 5,8. Árið 2005 var heildarkostnaðurinn 50,1 milljón og hlutdeild ríkisins 26,1. Árið 2006 var heildarkostnaður 49 milljónir og hlutdeild ríkisins 25,7 og árið 2007 var heildarkostnaðurinn 44,9 milljónir og hlutdeild ríkisins 22.

Kostnaður ríkisins við hverja meðferð hélst óbreyttur fram til ársins 2007 er samið var um 8,7% hækkun vegna þróunar verðlags og launa. Í febrúar 2007 hafði verið samið um 7,5 millj. kr. aukið framlag til magnaukningar og var miðað við að fjöldi tæknifrjóvgana færi úr 320 í 386 á ári.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari að fullu fyrirspurn hv. þingmanns og er sammála hv. þingmanni í því að þetta er eitt af því fjölmarga sem við getum verið afskapleg stolt af í íslensku heilbrigðisþjónustunni.