135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

kostnaður af áfengisnotkun.

224. mál
[20:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegur forseti. Á þskj. 242 ber ég fram tvær fyrirspurnir til hæstv. heilbrigðisráðherra um kostnað af áfengisnotkun. Í fyrri spurningunni er spurt: Hver er áætlaður árlegur kostnaður þjóðfélagsins af áfengisnotkun? Og í þeirri síðari: Hvað er áætlað að árlegur kostnaður þjóðfélagsins hafi vaxið mikið frá 1997, þegar neyslan var um 5 lítrar af hreinu alkóhóli á hvern 15 ára og eldri, til ársins 2005 þegar neyslan hafði aukist í 7,1 lítra?

Nýrri tölur hef ég ekki undir höndum, virðulegur forseti, þannig að ég get ekki vitnað til ársins 2006 en mér segir svo hugur um að neyslan hafi heldur aukist en hitt.

Það er fróðlegt að fá mat á þeim kostnaði sem hlýst af neyslu alkóhóls einmitt til að undirstrika að það er vímugjafi, fíkniefni sem er ekki tekjulind fyrir ríkissjóð heldur útgjöld fyrir þjóðfélagið, bæði ríkissjóð, heimili og atvinnuvegi landsins. Þess vegna hafa stjórnvöld í flestum löndum, skulum við segja, haft uppi ákveðna stefnu til að takmarka kostnað samfélagsins af notkun efnisins vegna þess að menn treysta sér ekki til þess að reyna að útrýma notkun þess. Það var reynt fyrir tæplega öld eða svo en tókst ekki og menn læra af reynslunni og hafa ákveðið að reyna fremur að hafa reglur sem takmarka skaðsemina en að banna.

Með þeirri heilbrigðisáætlun sem nú er í gildi fylgdi mat Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kostnað af áfengisnotkun eins og hann var metinn á þeim tíma, á verðlagi ársins 2000. Þar komst stofnunin að þeirri nálgun að kostnaður þjóðfélagsins væri á bilinu 5,7–7,7 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2000. Þá var neyslan 5,56 lítrar á hvern 15 ára og eldri af hreinum vínanda en hefur aukist í 7,1 eins og fram kemur. Fyrsta markmiðið sem sett var í þeirri heilbrigðisáætlun sem var samþykkt — það segir sína sögu um áherslur Alþingis á þetta mál — var að minnka notkunina í 5 lítra, þ.e. um hálfan lítra. Það gefur nálgun sem hægt er að styðjast við.

Tölur hafa einnig birst frá breskri stofnun um það hver kostnaður gæti verið þar í landi og hann gæti verið um 13 milljarðar kr. ef það kostnaðarmat er yfirfært á mannfjölda hér á landi.

Virðulegur forseti. Ég hef borið fram þessar tvær fyrirspurnir og bíð spenntur eftir að fá svör hæstv. heilbrigðisráðherra.