135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

kostnaður af áfengisnotkun.

224. mál
[20:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn þar sem hann spyr um áætlaðan árlegan kostnað þjóðfélagsins af áfengisnotkun.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hefur ekki nýlega verið gerð rannsókn hér á Íslandi sem getur upplýst hver kostnaður samfélagsins, bæði beinn og óbeinn, er vegna áfengisneyslu. Í úttektum sem gerðar hafa verið í öðrum löndum er beinn kostnaður samfélagsins afleiddur af neyslu, framleiðslu og dreifingu áfengis. Þar er tiltalinn kostnaður tengdur áætluðum heilsufarslegum, félagslegum og velferðartengdum þáttum auk þátta á borð við umferðarmál, löggæslu og fangelsiskerfi. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er aldrei um annað en grófar áætlanir að ræða.

Það er vandaverk að áætla slíkan kostnað og krefst rannsóknarvinnu þar sem þeir þættir sem nýttir hafa verið í erlendum viðmiðunarrannsóknum væru metnir út frá aðstæðum hér á landi. Eins og fram kemur í upphafi svars hefur slík rannsóknarvinna ekki verið gerð hér á landi, a.m.k. ekki á síðustu missirum.

Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um það að í Evrópu, þar sem meðalneysla var árið 2006 11 áfengislítrar, er beinn kostnaður að hámarki metinn um 1,3% af vergri landsframleiðslu. Óbeinn kostnaður er hins vegar metinn á 1,9% af vergri landsframleiðslu. Þá geta menn hugsanlega, a.m.k. með einhverja nálgun, metið það hlutfallslega með því að gefa sér línulega fylgni þarna á milli miðað við þá áfengisneyslu sem er hér á landi. Það er auðvitað háð ákveðinni óvissu.

Þá er sömuleiðis skemmst frá því að segja varðandi seinni spurninguna að ég verð að vísa í fyrra svarið, að þar sem við höfum ekki gert þessa úttekt sem væri örugglega fróðlegt að gera — af því að það kallar á nokkuð ítarlega rannsókn — höfum við ekki þær tölur sem hv. þingmaður kallar hér eftir.