135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

kostnaður af áfengisnotkun.

224. mál
[20:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér sýnist að á þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum megi ætla að það sé nokkuð gott samræmi á milli þeirra talna og þeirra sem fram komu í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á sínum tíma. 2,2% af vergri landsframleiðslu þýðir kostnað sem er yfir 20 milljarðar kr. á ári miðað við það mat. Ef við tökum tölur Hagfræðistofnunar frá árinu 2000 og reynum að yfirfæra þær á verðlag í dag, og hækka þær upp miðað við aukningu á notkuninni sem orðið hefur á þessum tíma, sýnist mér heildarkostnaðurinn vera einhvers staðar á bilinu 10–15 milljarðar kr. miðað við þeirra mat eins og það var og að aukningin úr 5 lítrum í 7,1 kosti þjóðfélagið ekki minna en 2–3 milljarða kr. á ári. Miðað við þær forsendur sem fyrir liggja er þetta trúlega tiltölulega varlegt mat og þær tölur sem ég hef séð frá Bretlandi og Bandaríkjunum benda til þess að þetta sé það.

Þá má a.m.k. segja að miðað við tiltækar upplýsingar sé niðurstaðan sú að aukningin í notkun frá því að heilbrigðisáætlunin var samþykkt árið 2001 kosti þjóðfélagið 2–3 milljarða ár ári, ekki minna en það, og að áfengið sem slíkt kosti þjóðfélagið 10–15 eða jafnvel yfir 20 milljarða kr. Það er bilið sem við höfum. Kannski má færa þessa 20 milljarða niður miðað við notkunina í 7 lítrum (Forseti hringir.) og þá fáum við kannski 15–16 milljarða kr.

Það er alveg sama hvernig menn nálgast þetta, þetta eru allt gríðarlega háar fjárhæðir, virðulegur forseti.