135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

áfengisneysla og áfengisverð.

225. mál
[20:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á þskj. 243 ber ég fram tvær spurningar til hæstv. heilbrigðisráðherra um áfengisneyslu og áfengisverð. Í fyrri spurningunni er spurt: Hvað telur ráðherra að áfengisneysla mundi aukast mikið frá því sem nú er ef samþykkt verður að selja áfengi í smásöluverslunum? Og í þeirri síðari: Hvaða áhrif hefði helmingslækkun áfengisgjaldsins á áfengissölu og neyslu?

Ég held að það sé afar fróðlegt að reyna að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif tilteknar breytingar hafa og sérstaklega þær sem eru helst til meðferðar hér á Alþingi. Fyrir liggur frumvarp sem gerir ráð fyrir hvoru tveggja sem um er spurt, annars vegar að áfengi verði að mestu leyti heimilt að selja í matvöruverslunum eða smásöluverslunum og hins vegar er gert ráð fyrir því að áfengisgjald verði lækkað um helming samhliða þeirri breytingu.

Ég tek eftir því í gögnum eins og m.a. frá hinni bresku stofnun Nuffield Council on Bioethics sem nýlega gaf út skýrslu um áfengi og fleiri vímuefni, dró saman upplýsingar og ráðleggingar til stjórnvalda til að stemma stigu við hrikalegri áfengismenningu eða ómenningu í Bretlandi, að þar er dregið saman í mjög stutt að reynslan sé sú að það sem helst hefur áhrif á að takmarka notkun áfengis eru skattar, þ.e. verðið á áfenginu, og sölutíminn, þ.e. aðgengi að áfenginu.

Þetta er ákaflega athyglisverð niðurstaða hinna bresku sérfræðinga sem fjölmörg samtök standa að, að benda á það sem algjöra niðurstöðu sína varðandi áfengispólitík að ráðleggja stjórnvöldum að hækka verð á áfengi, hækka skattana, og draga úr aðgengi að áfengi með því að takmarka sölutíma þar í landi.

Ég hef séð fréttir frá Svíþjóð sem ég hygg að sænska landlæknisstofnunin hafi látið athuga fyrir sitt leyti um hver áhrifin yrðu í Svíþjóð ef farin yrði sú leið að heimila sölu áfengis í smásöluverslunum og hafði til aðstoðar rannsóknaraðila í Kaliforníu. Niðurstaða þeirra varð sú að þeir töldu að aukningin eða neyslan í Svíþjóð mundi aukast um 29% við það eitt að færa áfengissöluna úr þeirra „ríki“ sem er svipað og við þekkjum hér á landi yfir í smásöluverslanir.