135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

226. mál
[21:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á þskj. 244 ber ég fram tvær spurningar til hæstv. heilbrigðisráðherra um markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2009 sem samþykkt var í þingsölum vorið 2001. Fyrri spurningin er eftirfarandi, með leyfi forseta:

Hverjar eru helstu ástæður þess, að mati ráðherra, að áfengisneysla hefur vaxið verulega frá því sem hún var þegar heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var samþykkt á Alþingi í maí 2001 og er liðlega 40% yfir markmiðum áætlunarinnar eða 7,1 lítri af hreinu alkóhóli á hvern íbúa 15 ára og eldri miðað við árið 2005?

Síðari spurningin er, virðulegi forseti:

Hverjar eru tillögur ráðherrans til að minnka áfengisneysluna og telur hann raunhæft að ná settu marki um 5 lítra árið 2010?

Það þarf kannski ekki að fylgja þessari fyrirspurn frekar úr hlaði. Það hefur komið fram fyrr í þessari umræðu í tveimur fyrirspurnum á undan. Það sem skiptir máli, a.m.k. að mínu mati, er að þróunin á síðustu árum hefur verið sú að verð á áfengi hefur ekki fylgt verðlagi, sérstaklega ekki á áfengisgjaldinu og sölustöðum hefur fjölgað og opnunartími lengst.

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir að heyra hverjar skýringar ráðherrans eru á þessum hlutum.