135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

226. mál
[21:10]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrri spurningin er svohljóðandi:

„Hverjar eru helstu ástæður þess, að mati ráðherra, að áfengisneysla hefur vaxið verulega frá því sem hún var þegar heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var samþykkt á Alþingi í maí 2001 og er liðlega 40% yfir markmiðum áætlunarinnar eða 7,1 lítri af hreinu alkóhóli á hvern íbúa 15 ára og eldri miðað við árið 2005?“

Því er til að svara að fjölmargar rannsóknir bæði innlendar og erlendar hafa leitt í ljós að ástæður áfengisneyslu eru fjölbreyttar og flóknar. Þannig hafa rannsóknir sýnt að áfengisneysla er tengd félagslegum og efnahagslegum þáttum í umhverfi einstaklinga, svo og einstaklingsbundnum þáttum og samspil þessara þátta er oft afar flókið. Einn þessara þátta er aukinn kaupmáttur en rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvæð tengsl eru milli kaupmáttar og áfengisneyslu, þ.e. aukinn kaupmáttur er tengdur aukinni áfengisneyslu. Þá er líklegt að aukin neysla tengist verulegri aukningu ferðamanna til Íslands. Rétt er að benda á í þessu samhengi að skoða ætti hvort taka eigi tillit til fleiri breytna í heilbrigðisáætlun en heildarneyslu áfengis. Þannig er ljóst að neysluvenjur Íslendinga hafa breyst til muna á undanförnum árum, neysla sterkra drykkja hefur minnkað til muna en neysla léttvíns og bjórs aukist.

Félagsleg vandamál tengd áfengisneyslu hafa oft verið rakin til ölvunardrykkju. Ánægjulegt er að það forvarnastarf sem hér hefur verið unnið á undanförnum árum hefur skilað sér í mikilli minnkun ölvunardrykkju meðal íslenskra ungmenna. Þannig var hlutfall 15 og 16 ára ungmenna sem sögðust hafa verið drukkin síðustu 30 daga fyrir könnun 42% árið 1998 en sambærilegt hlutfall var 20% árið 2006. Á sama hátt hefur dregið verulega úr óæskilegum atburðum tengdum neyslu meðal ungmenna. Lengst af mældust íslensk ungmenni meðal hæstu Evrópuþjóða þegar spurt var um hvort þau hefðu orðið fyrir óæskilegum atburðum tengdum neyslu áfengis, til að mynda hvort þau hefðu lent í slysum eða orðið fyrir meiðslum, hvort stolið hefði verið frá þeim eða þau tekið þátt í kynlífi sem þau sáu eftir daginn eftir. Hlutfall íslenskra unglinga sem svara þessum spurningum jákvætt hefur nú dregist saman um meira en helming og mælast þau nú ekki lengur meðal hæstu þjóða hvað þetta varðar. Árið 1995 svöruðu þannig 14% ungmenna í 10. bekk að þau hefðu orðið fyrir slysum eða meiðslum tengdum áfengisneyslu árið 1995 og var Ísland í öðru hæsta sæti meðal 20 Evrópuþjóða sem tóku þátt í rannsókninni. Árið 2003 var þetta hlutfall komið niður í 4% og hafði sæti Íslands færst niður í miðju þeirra þjóða sem tóku þátt í könnuninni. Skýring á þessu er rakin til minni ölvunardrykkju íslenskra ungmenna.

Úttekt á breyttum neysluvenjum er verðugt viðfangsefni svo og að leita leiða til að vinna markvisst að því að draga úr líkum á aukinni neyslu með því að hafa áhrif á þá þætti sem auka líkur á notkun áfengis. Vert er þó í þessu sambandi að benda á að neysla Íslendinga á áfengi er minni en í löndunum í kringum okkur. Það er 7,1 lítri í stað 11 lítra á mann í þeim löndum sem við berum okkur yfirleitt saman við.

Síðari spurningin hljóðar svo:

„Hverjar eru tillögur ráðherrans til að minnka áfengisneysluna og telur hann raunhæft að ná settu marki um 5 lítra árið 2010?“

Virðulegi forseti. Hér þarf ég að lesa svolítið hratt. Góður árangur hefur náðst í heilsueflingu og vímuefnavörnum í grunnskólum landsins á undanförnum árum. Árið 1997 höfðu 38% nemenda í 10. bekk orðið drukkin síðastliðna 30 daga en 10 árum síðar, árið 2007, var sú tala komin niður í 20%. Daglegar reykingar 10. bekkinga hafa á sama tíma farið úr 21% árið 1997 niður í 10% í ár og þannig hefur fækkað í 10. bekk sem prófað hafa hass úr 13% árið 1997 í 7% árið 2007. Það er því afbragðs árangur sem náðst hefur meðal grunnskólanema.

Nú þarf að huga að framhaldsskólunum en rannsóknir hafa leitt í ljós að meðal þess aldursflokks er neysla vímuefna mun meiri og brýn þörf að bregðast við. Til að bregðast við því hafa heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið í sameiningu og í samvinnu við Lýðheilsustöð, Hitt húsið og nemendur og nemendafélög framhaldsskólanna, hafið starf sem miðar að því að efla heilsu framhaldsskólanema. Samstarfshópnum um heilsueflingu og forvarnir er ætlað að koma á heilsueflingu og öðrum forvörnum í skýran og traustan farveg í framhaldsskólum landsins og stuðla þannig að bættri heilsu og líðan nemenda, draga úr vímuefnaneyslu svo og að draga úr brottfalli og auka námsárangur. Rétt er að nefna ánægjulega niðurstöðu sem fram kom í ársskýrslu SÁÁ fyrir árið 2006 en hún leiðir í ljós að aðsókn nýliða á Vog, þ.e. þeirra sem koma í fyrsta sinn á Vog, hefur ekki aukist á undanförnum árum. Þannig voru 639 nýliðar skráðir á Vog árið 2000 og er sú tala sama árið 2006 en hefur rokkað þarna á milli. Sömuleiðis hefur fjöldi ungra vímuefnaneytenda sem skráðir hafa verið á Vog lækkað úr 288 árið 2000 niður í 234 árið 2006. Þetta er ánægjuleg þróun sem hugsanlega má rekja til þess markvissa forvarnastarfs sem hér hefur verið unnið með ungu fólki síðasta áratug.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að neysla fylgir árgöngum. Þannig er árgangur sem er í lítilli neysla um 14 ára aldur líklegur til að vera í lítilli neyslu nokkrum árum síðar. (Forseti hringir.) Á sama hátt er greinilegt að árgangur sem er í mikilli neyslu á unglingsaldri er líklegur til að vera í mikilli neyslu nokkrum árum síðar. Vera kann að með því að vinna markvisst forvarnastarf meðal ungmenna (Forseti hringir.) sé unnt að draga úr líkum á áfengis- og vímuefnaneyslu til lengri tíma og ég mun beita mér fyrir því sem heilbrigðisráðherra, virðulegi forseti.