135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

226. mál
[21:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og viðbrögðin. Skemmst er frá því að segja að mér þykir mjög margt sem fram kom í máli hans athyglisvert og eitthvað sem við ættum að hugsa um.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að hvert ár sem líður án þess að ungmenni drekki skiptir miklu máli, það eru mjög mikilvæg ár og það hefur margoft komið fram í rannsóknum. Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að við eigum að leiða hugann að því að ekki sé allt sjálfgefið af þeim siðum sem tíðkast í samfélagi okkar hvað þetta varðar, ég tala nú ekki um að það sé regla að áfengi sé alltaf haft um hönd.

Maður sér sem betur fer mörg jákvæð dæmi hvað þetta varðar, t.d. leggja hin ýmsu félagasamtök meiri áherslu á að fjölskyldan sé saman. Þær samkomur sem áður voru einungis fyrir þá sem eldri voru, og áfengi þá oft og tíðum haft um hönd, eru nú fjölskyldusamkomur. Ef til vill er kominn tími til að þingið og ríkisvaldið fari að huga að þessum hlutum. Ég met það svo að hv. þingmaður vilji hvetja okkur til að hugsa þessa hluti með jákvæðum hætti og horfa til þess að hafa fjölbreyttari samkomur, ef þannig má að orði komast, og leggja meiri áherslu á samkomur þar sem vín er ekki haft um hönd.

Ég er sammála hv. þingmanni, við eigum að nálgast þetta með jákvæðum formerkjum. Þannig náum við árangri. Rannsóknir hafa sýnt að þegar menn stilla saman strengi sína, fjölskyldur, rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar og frjáls félagasamtök, (Forseti hringir.) næst góður árangur.