135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Stundum grípur sú tilfinning okkur þingmenn að við flytjum ræður okkar hér inn í steininn, inn í blágrýtið sem húsið er hlaðið úr, og þaðan heyrist lítið út til almennings annað en stakar setningar á stangli. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé illa haldin af þessari tilfinningu en hún kom mér þó í hug þegar Morgunblaðið birti frásögn af fyrirspurn minni á baksíðunni síðasta miðvikudag, sem er í fyrsta sinn sem þingmál frá mér ratar á útsíðu Morgunblaðsins.

Ekki þarf að rekja viðbrögðin við fréttinni, þau eru öllum kunn. En vegna þeirra sterku viðbragða, sumra nokkuð yfirdrifinna, má segja að búið sé að mæla fyrir fyrirspurninni ótal sinnum í fjölmiðlum og svarinu líka. Ég vil þó leyfa mér að vona að við hæstv. heilbrigðisráðherra getum skipst á skoðunum um málið á málefnalegan og yfirvegaðan hátt eins og okkur báðum er lagið þær tólf mínútur sem við höfum til ráðstöfunar af tíma þingsins.

Kveikja fyrirspurnarinnar er áhugi minn á mismunandi stöðu kynjanna í samfélaginu og löngun mín til að leiðrétta stöðu kvenna sem eins og alþjóð veit eiga langt í land með að verða jafnsettar körlum. Nægir að nefna kynbundinn launamun, kynbundið val í valda- og áhrifastöður og kynbundið ofbeldi. Þessi áhugi minn hefur fengið mig til að lesa nokkurn fjölda greina um kyngervi en það er íslenska orðið sem notað er yfir enska hugtakið gender sem er lykilhugtak í allri umræðu um stöðu kynjanna. Fræðimenn, sem fjalla um kyngervi, hefja gjarnan athuganir sínar í frumbernsku, jafnvel strax við fæðingu, og vekja athygli okkar á því að fyrsta spurningin sem spurt er þegar barn fæðist sé ævinlega: Var það stelpa eða var það strákur?

Ég gríp niður í grein eftir Guðrúnu Öldu Harðardóttur, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, sem birtist í afmælisriti HA, með leyfi forseta, þar segir:

„Frá unga aldri mótast sjálfsmynd barns. Það lærir ekki aðeins hver það er, Björg eða Björn, heldur einnig hvað það er, stúlka eða drengur. Strax við fæðingu, eða þegar vitað er hvers kyns barnið er, bregst umhverfi þess mismunandi við, bleik föt eru t.d. keypt fyrir stúlkur og blá fyrir drengi.“

Í Sálfræðibókinni eftir Hörð Þorgilsson og Jakob Smára, sem kom út hjá Máli og Menningu 1993, segir í kaflanum um kynmótun, með leyfi forseta:

„Við höfum samt lítið breytt viðhorfum okkar til kynbundinnar framkomu. Þau birtast strax á fæðingardeildinni er við tölum um litlu dúlluna og allir vita að ekki getur verið átt við strák. Við tölum líka um stóran og stæltan strák en stóra og myndarlega stúlku.“

Síðar í þessum sama kafla:

„Þegar ljósmóðirin nefnir kyn barns á fæðingardeildinni ákveðst einnig það kynuppeldi sem það kemur til með að fá frá foreldrum. Þeir setja síðan mark sitt á það kynuppeldi sem barnið fær frá umhverfinu.“

Virðulegur forseti. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt en drengi í blátt og auðkenna drengi með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?

Jafnframt hvort ráðherra telji koma til greina að þessari hefð verði breytt.