135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en hún hljóðar svo:

„1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn eru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?“

Eftir því sem næst verður komist er talið að aðgreining barna með litum eftir kynjum hafi byrjað upp úr 1955 á fæðingardeild Landspítalans. Fram að því höfðu nýfædd börn verið klædd í hvítt. Þegar leið á miðja síðustu öld fannst mörgum að umhverfið á fæðingardeildinni væri of stofnanalegt og smám saman fóru að koma litir. Þá var byrjað að aðgreina börn með armböndum og síðar voru bleikir og bláir saumar hafðir í fötunum. Síðustu áratugi hafa bleik eða blá föt verið notuð í auknum mæli. Auk þess hafa verið notuð bleik og blá teppi til að breiða yfir börnin og má geta þess að teppin hafa verið notuð fyrir bæði kynin óháð lit og kyni.

Við stofnun Fæðingarheimilisins í Reykjavík 1960 var tekin sú ákvörðun að hafa aðstöðu fyrir verðandi og nýorðnar mæður eins heimilislegar og kostur væri. Brýn þörf var fyrir stofnun Fæðingarheimilisins þar sem fæðingardeild Landspítalans annaði ekki eftirspurn eftir fæðingaraðstöðu. Jafnframt var talin þörf fyrir að fækka heimafæðingum, auka öryggi fæðinga og auka fjölbreytni og val foreldra við fæðingu. Öll aðstaðan á Fæðingarheimilinu var því meðvitað höfð heimilisleg. Þar voru öðruvísi húsgögn og litir á veggjum en á spítala og var það gert með það í huga að minnka stofnana- og spítalabrag á Fæðingarheimilinu til að gera andrúmsloftið innan veggja þess afslappað og heimilislegt enda var um heimili að ræða en ekki hefðbundna sjúkrastofnun. Hluti af þessum heimilisanda innan Fæðingarheimilisins var að klæða nýfædd börn í lituð föt, stúlkur í rósótt föt með rauðu ívafi og drengi í rósótt föt með bláu ívafi. Síðar urðu fötin meira blá og bleik og einnig voru fleiri litir á fötum ungbarna, svo sem gult, grænt og hvítt. Fyrrverandi forstöðukona Fæðingarheimilisins, Hulda Jensdóttir, lagði áherslu á heimilisanda eins og fyrr sagði og hluti af því var klæðnaður ungbarna.

Ráðuneytið leitaði til margra heilbrigðisstofnana varðandi efni fyrirspurnarinnar og kom fram hjá öllum yfirljósmæðrum að það að aðgreina ungbörn með mismunandi litum auðveldaði starfsfólki samskipti við foreldra og nýorðnar mæður, það gerði þeim kleift að tala um börnin í réttu kyni og því fylgir ákveðin virðing að kyngreina barn rétt. Hjá öllum stofnunum sem leitað var til kom fram að foreldrar réðu hvaða litir væru á fötum hins nýfædda barns og starfsfólk virti óskir foreldra. Allar þær ljósmæður sem rætt var við sögðu frá því að á fæðingardeild væru til föt í fleiri litum en bláu og bleiku, t.d. gul, græn og hvít.

Þá er það seinni spurningin, virðulegi forseti:

„2. Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?“

Allir þeir sem rætt var við varðandi þessa fyrirspurn vöruðu sterklega við því að taka miðstýrða ákvörðun um hvaða litir ættu að vera á fötum nýfæddra barna. Það ætti fyrst og fremst að vera ákvörðun foreldra hvaða litur væri á klæðnaði nýfædds barns. Enginn viðmælenda kannaðist við að foreldrar væru óánægðir með fyrirkomulag á fötum nýfæddra barna, þvert á móti væru foreldrar ánægðir með fjölbreytnina og að eiga kost á að velja um mismunandi liti á fötum. Það mundi kosta 4 millj. kr. að skipta út öllum fötum og teppum á fæðingardeild Landspítalans. Formaður Ljósmæðrafélagsins kannaðist ekki við umræðu um aðgreiningu ungbarna eftir kynjum á fæðingardeildum. Hins vegar hefur það alltaf verið ríkt í ljósmæðrum að hafa aðstæður verðandi og nýbakaðra mæðra sem heimilislegastar. Hluti af því er að nýfædd ungbörn eru klædd í lituð föt, oftast eru drengir klæddir í blátt og stúlkur í bleikt.

Virðulegur forseti. Svo að ég svari spurningunni hreint út þá kemur ekki til greina að ég fari að skipta mér af þessum hlutum. Ég tel reyndar að við getum verið afskaplega stolt af því hvernig að málum er staðið hjá okkur Íslendingum og það kemur fram í mörgu. Ég þekki það sjálfur af eigin reynslu, þó að það sé aukaatriði, hversu góð þjónusta er í boði. Við sjáum það af tölum um aðhlynningu og afkomu ungbarna að við erum meðal þeirra allra fremstu í heiminum. Ég held að fullyrða megi að fólk sé mjög ánægt með þjónustuna, þeir sem þurft hafa á henni að halda. Þó að örugglega megi gera ýmislegt til að bæta hana enn frekar tel ég ekki rétt að ráðherra skipti sér af þessum málum með beinum hætti. Þvert á móti á ráðherra að hrósa því (Forseti hringir.) sem oftast sem vel er gert á þessu sviði.