135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða og ég met það svo að enginn fari fram á það við mig að ég fari að hlutast til um það hvaða litir verða þarna á ferðinni. Hins vegar er ég í fyrirspurninni spurður hvort það komi til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind með kyni, með bleikum og bláum armböndum, og þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari litli. Það er skýrt kannað í fyrirspurninni hvort ég vilji hlutast til beint um þessi mál. Það er nokkuð sem ég vil ekki gera.

Ég held að það sé rétt að það komi fram, kom að vísu fram í svari mínu, að miðað við bestu heimildir sem ég hef hefur alltaf verið virtur réttur foreldra í þessu sem og flestu öðru sem snýr að þeim þegar á fæðingardeild er komið. Eins og ég nefndi held ég að því fagfólki sem heldur utan um þetta sé afskaplega vel treystandi til að gera það. Það er alveg ljóst hvað menn hafa reynt að gera á þessum stöðum. Menn hafa reynt að gera þessa staði eins heimilislega og þægilega og mögulegt er og hefur tekist það afskaplega vel svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Varðandi jafnréttismálin almennt held ég að það skipti máli að við reynum að koma þannig fram við okkar börn að við ölum upp sjálfstæða einstaklinga. Sjálfstæðir einstaklingar velja það sem þeim finnst rétt og að sjálfsögðu eins og kemur fram hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu eigum við (Forseti hringir.) að gefa fólki jöfn tækifæri, sama af hvoru kyni það er eða (Forseti hringir.) aðrar forsendur sem þar eru.