135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

styrking byggðalínu.

300. mál
[21:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þeim mikla áhuga sem er meðal þingmanna á orku og orkuflutningsgetu okkar landsmanna. Það mun mjög styðja iðnaðarráðherra í viðleitni sinni til að bæta það. Hv. þingmaður spyr:

1. Hversu mikla þörf telur ráðherra á að auka flutningsgetu byggðalínunnar og styrkja hringtengingu raforkunetsins?

Ég vil segja það alveg skýrt að ég er kominn á þá skoðun í gegnum það spurningaflóð sem á mér hefur dunið um þessi mál að það sé töluvert mikil þörf á því. Ég get sagt það — og ég vona að hv. þingmaður virði mér til vorkunnar að ég grípi til orðalags sem ráðherrum hefur verið tamt upp á síðkastið: Það er mín persónulega skoðun að uppbygging byggðalínunnar og styrking hringtengingarinnar sé næsta stórverkefni í orkumálum Íslendinga. Það er af ýmsum ástæðum sem ég segi það. Í fyrsta lagi tel ég að flutningskerfið sjálft og ýmsa anga út úr því þurfi að styrkja verulega. Ég nefni tvennt sem hv. þingmaður, af því að hann er mjög landsbyggðarvænn, hefði átt að spyrja mig líka að, í fyrsta lagi að það er auðvitað sá leggur sem liggur vestur á firði sem gerir það að verkum að hann er það vanbúinn að þar er afhendingaröryggi langminnst. Það er sannarlega partur af flutningsmannvirkjunum sem við þurfum að skoða ákaflega vel. Hefðin og reynslan sýna að sökum veðra og almenns náttúrufars á því svæði er það þar sem landsmenn búa við minnst afhendingaröryggi. Þetta þarf auðvitað að skoða í framtíðinni.

Hins vegar er ég líka þeirrar skoðunar að sá partur af flutningskerfinu sem kannski telst ekki til hinnar hefðbundnu byggðalínu, parturinn sem enn þarf að brúa, t.d. frá stað eins og Þorlákshöfn og upp í það kerfi sem liggur frá Þjórsá til Reykjavíkur sé hugsanlega næsta verkefni. Þar þarf að leggja sterka línu. Það geri ég ekki bara vegna þess að menn eru að tala þar mögulega um álver. Menn tala líka um þann stað sem mögulegan stað fyrir annars konar orkufrekan iðnað sem ekki mengar og ég get alveg trúað hv. þingmanni fyrir því að margra augu beinast að þeim stað. Ég ímynda mér að það þurfi að skoða ákaflega vel.

Það sem veldur því kannski að ég tel þetta mikilvægt er, eins og hv. þingmaður sagði hérna áðan, að þess eru því miður dæmi að flöskuhálsar í kerfinu gera það að verkum að við getum ekki fullnýtt orkuvinnslugetu okkar. Mér var að vísu ekki kunnugt um það sökum æsku í starfi að þetta hefði reynst nauðsynlegt sem hv. þingmaður sagði, að það hefði staðið í vegi fyrir því að loðnubræðslur gætu tekið upp umhverfisvænni og betri orkuflutninga, þ.e. að þessir flöskuhálsar í kerfinu hefðu leitt til þess. Hitt liggur alveg fyrir að t.d. hefur þurft að skerða framleiðslu í Blöndu og annað liggur fyrir sem ég held að skipti miklu máli, að þróunin sé sú samkvæmt spám sem hafa verið settar fram að afrennsli af jöklum verði miklu meira á næstu árum. Það er líklegt að það muni aukast á næstu áratugum um kannski 10% sem þýðir að það er hugsanlega hægt miðað við fjárfestinguna sem þegar liggur í virkjunum að framleiða töluvert meira af rafmagni. Þá þurfum við hins vegar að hafa kerfi sem getur flutt þessa orku. Það er einfaldlega ekki svo í dag. Þess vegna hef ég sagt það áður í þinginu að það er hugsanlega hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem völ er á í dag að verja 2–3 milljörðum kr. í að byggja upp hringtenginguna til að geta nýtt þetta. Þá verðum við okkur úti um töluvert meiri orku án þess að þurfa að ráðast í nokkurs konar raskanir á umhverfi.

Hv. þingmaður spyr mig síðan um kostnaðinn við að uppfæra byggðalínuna í 220 kV og hversu mikið slík aðgerð mundi bæta afhendingaröryggið í raforkukerfinu.

Upplýsingar Landsnets segja að endurbygging byggðalínunnar úr 132 í 220 kV kosti 22 milljarða kr. Það mundi auka flutningsgetu hennar um 100 megavött. Ef við mundum hins vegar byggja algerlega nýjan byggðalínuhring, 220 kV miðað við 300 megavött, mundi það kosta 34 milljarða kr. Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta þurfa menn að vega á móti kostnaðinum við nýjar virkjanir og mér er næst að halda að þetta sé álitlegasti virkjunarkosturinn ef svo mætti að orði kveða.