135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eignarhald Landsnets.

302. mál
[21:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þetta fannst mér ákaflega athyglisverð spurning hjá hv. þingmanni og þó miklu fremur rökstuðningurinn fyrir henni. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en hv. þingmaður rökstuddi tilefni spurningarinnar að hann er ekki einungis að velta fyrir sér jafnræðisspurningunni sem vissulega vaknar af strúktúrnum sem er á eignarhaldinu heldur virðist hann halda því fram að þetta eignarhald og arðsemiskröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins, þá væntanlega með hagsmuni núverandi eigenda í huga, leiði til þess að verðið fyrir flutninginn sé hærra en það þurfi að vera. Ég hafði ekki áttað mig á því að síðarnefnda tilefnið væri uppi vegna þess að ég hef ekki litið svo á. Þannig er að samkvæmt lögum og reglugerðum er að vísu alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það má gera kröfur á ákveðna ávöxtun fjármagnsins sem í þessu liggur. Það er hins vegar mjög strangt eftirlit með öllu verkinu. Það er þannig í dag.

Ég hygg að ástæðan fyrir því, svo að ég komi fyrst að því, að þetta fyrirkomulag var haft á sem auðvitað má segja að hafi við fæðingu Landsnets orkað tvímælis hafi einfaldlega verið að flutningsvirkin voru að megninu til í eigu Landsvirkjunar og hluti af efnahagsreikningi fyrirtækisins. Ég ímynda mér að menn hafi talið að það ylli minnstri röskun á efnahag Landsvirkjunar á þeim tíma að gera það með þessu lagi og halda þar með þessum eignum innan efnahagsreiknings samstæðunnar.

Þegar maður skoðar uppbygginguna á eignarhaldi Landsnets blasir við að það er að öllu leyti í eigu helstu viðskiptavina. Stærsti viðskiptavinurinn sem er Landsvirkjun á þarna 69,44%. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að uppbygging eignarhalds á þjónustufyrirtæki af þessu tagi mundi sennilega aldrei vinna fegurðarsamkeppni. Menn gerðu sér grein fyrir þessu sem truflar hv. þingmann þegar Landsnet var stofnað árið 2004. Í löndum eins og Noregi og Svíþjóð er eignarhald flutningsfyrirtækisins t.d. hjá ríkinu og ég trúi að það sé það sem hv. þingmaður vísar hér til.

Það var þrennt sem menn gerðu á sínum tíma þegar í þetta var farið. Rík skylda var lögð í lögum á fyrirtækið að gæta hlutleysis. Það þarf að fullnægja ákveðnum kröfum sem eru bundin í lög og þar segir m.a. að stjórn fyrirtækisins skuli vera í einu og öllu sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu og dreifingu. Það verður að kappkosta að gæta í hvívetna jafnræðis við starfrækslu félagsins og það verður að vera fjárhagslega óháð einstökum eigendum. Þó að svona reglur séu í lögum geri ég mér algerlega grein fyrir því að samt sem áður er alltaf hætta á hinum ósagða þrýstingi sem hvergi er tjáður með opinberum hætti. Til að setja enn frekar undir þennan leka er það lögum samkvæmt ekki eigandinn heldur iðnaðarráðherra sem skipaði stjórn fyrirtækisins. Þetta ætti samkvæmt forminu að tryggja að ekki kæmi óeðlileg afstaða millum eigandans og fyrirtækisins. Við getum síðan skoðað raunveruleikann.

Maður á kannski ekki að draga einstaka embættismenn inn í umræður af þessu tagi. Ég verð samt sem áður að segja í tilefni umræðna sem hafa komið fram í fjölmiðlum á þessu ári og varða stóriðju að mér hefur þótt forstjóri Landsnets taka mjög afdráttarlaust og sjálfstætt á hlutum, tala ærlega og segja sína meiningu með þeim hætti að ég ímynda mér að ýmsum þeim sem eru í forustu fyrir orkufyrirtækjunum og hugsanlega stóriðjufyrirtækjum í landinu sem áttu hlut að því máli hafi þótt meira en nóg um. Ég verð að segja að mín reynsla af Landsneti er þannig að ég hef á því fyrirtæki mikinn dyn. Mér finnst það vera vel undirbúið undir framtíðina. Það veit hvaða verkefni liggja fyrir, það veit með hvaða hætti það hyggst ráðast í þau. Það eyðir nú þegar miklum peningum í að styrkja og bæta flutningskerfið þannig að ef ég kem nú að svari mínu er þetta nokkuð sem ég væri alveg til í að skoða en mig skortir samt sem áður hin skýru rök fyrir því að þetta sé nauðsynlegt núna.