135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn hefur hrokkið upp af dvalanum og sýnir lit í þessum efnum en það veldur miklu vonbrigðum hve seint það gerist og hve litlu það skilar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lögðum til við 2. umr. fjárlaga að 5 milljarðar kr. færu í þennan málaflokk strax á næsta ári. Það var því miður fellt. Það sem hér er kynnt er til muna minna og kemur til framkvæmda í áföngum frá og með næsta ári og árinu 2009.

Þetta eru því miður allt of litlar og götóttar aðgerðir því að fjölmargir hlutir hafa þróast með þeim hætti á undanförnum missirum að kjör aldraðra og öryrkja skerðast en batna ekki. Má þar nefna t.d. stórhækkaðan lyfjakostnað, kostnað í heilbrigðiskerfinu, m.a. á að hækka komugjöld um 160 millj. kr. á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Að sjálfsögðu er það tilfinnanlegt, ekki síst fyrir þessa hópa sem þurfa að reiða sig mikið á þjónustu þess kerfis. Húsnæðiskostnaður hefur hækkað gríðarlega og er að sjálfsögðu tilfinnanlegastur fyrir tekjulága hópa samfélagsins. Þar eru engar aðgerðir boðaðar, hvorki hækkun vaxtabóta né stuðningur við sveitarfélögin til að hækka húsaleigubætur. Öryrkjar með börn á framfæri sem að sjálfsögðu eru margir í þessum hópi standa frammi fyrir því að barnabætur munu rýrna á næsta ári en ekki hækka eins og ætla hefði þó mátt af hástemmdum kosningaloforðum stjórnarflokkanna, a.m.k. Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Maður fagnar því með blendnum tilfinningum að ríkisstjórnin sýni þennan lit, að hún vakni af dvalanum, en vonbrigðin eru að sjálfsögðu þau að það skuli skila svona litlu, að þetta skuli vera svona lítið, svona seint og svona götótt.