135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:38]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn fögnum auðvitað öllum kjarabótum til þeirra sem minna hafa. Á síðasta kjörtímabili var dregið verulega úr tekjutengingum maka og frítekjumarkið hækkað þannig að þessi aðgerð er í sjálfu sér prýðileg. Það er 5 milljarða innspýting í hagkerfið að vísu en ekki til hópa sem eru í eyðslu eða þenslu þannig að því ber að fagna.

Það sem ég óttast kannski í þessu er að enn séu skildir eftir þeir hópar sem sárast eru settir og erfiðast eiga. Samfylkingin sagði fyrir kosningar: Við viljum að eldri borgarar fái lífeyri sem dugar fyrir framfærslu. Ég hygg að þrátt fyrir þessa ágætu aðgerð séu einstaklingar bæði meðal aldraðra og öryrkja sem eru einir, sem geta ekki aflað sér tekna, hafa bara bæturnar, sem fá lítið sem ekkert af þessari upphæð. Þeir sitja áfram eftir.

Nú tel ég mikilvægast að bæta kjör þeirra sem verst eru settir hvar sem þeir eru í þjóðfélaginu. Kjarasamningar eiga auðvitað að snúast um að bæta og jafna kjör karla og kvenna á vinnumarkaði, en ég vil segja að ríkisstjórnin verður svo auðvitað að gá að sér því að versti þjófur sem til er, sem fer beint í veskið, er verðbólgan á Íslandi, háu vextirnir, þeir sem eru núna að taka lífskjörin og launin frá barnafólkinu okkar, unga skulduga fólkinu. Þess vegna er mér áhyggjuefni hin daufgerða ríkisstjórn sem ekki hefur unnið að því að halda verðbólgunni í skefjum. Við styðjum, eins og við höfum gert þegar við sitjum í ríkisstjórn, kjarabætur til aldraðra og öryrkja. Við framsóknarmenn börðumst fyrir því og stigum stór tímamótaskref á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) og þess vegna leggjumst við ekki gegn þessari aðgerð heldur fögnum henni en minnum á hina hópana sem erfitt eiga.