135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Í þeim aðgerðum sem hæstv. forsætisráðherra hefur hér kynnt er greinilega lögð áhersla á að bæta kjör þeirra sem verst eru settir umfram aðra og við fögnum því, þingmenn Frjálslynda flokksins. Við minnum á tillögur okkar á þskj. 10, í frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar, þar sem við leggjum einmitt til það sem er uppistaðan í boðuðum tillögum ríkisstjórnarinnar, að afnema tengingu tekna lífeyrisþega við tekjur maka. Við leggjum líka til að afnema skerðingu bóta lífeyrisþega vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Við fögnum því sérstaklega að ríkisstjórnin hefur tekið undir þessar tillögur okkar og ákveðið að flytja þær í sérstöku frumvarpi og bendum á að ef það skyldi vefjast fyrir ríkisstjórninni að koma saman textanum er hann hér í þingskjölum.

Ég vil spyrja, virðulegur forseti, vegna þess sem fram kemur í 3. tölulið um skerðingu tryggingabóta vegna tekna maka sem verði afnumin hvort þar sé eingöngu átt við atvinnutekjur eða hvort þar sé líka átt við skerðingu vegna lífeyristekna maka.

Ég minni á, virðulegur forseti, að þetta er áfangi á réttri leið en það þarf að gera betur. Við tökum undir þau sjónarmið og bendum á tillögur okkar um viðbótarpersónuafslátt til lágtekjufólks og hvetjum ríkisstjórnina til að kynna sér þær tillögur. Ég hygg að það séu bestu tillögurnar sem völ er á til að bæta enn frekar og jafna lífskjör á Íslandi.