135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[11:51]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hollt í upphafi umræðu um þetta mál að rifja upp stöðuna eins og hún var fyrir ári. Fyrir lá að varnarliðið hafði verið kvatt heim með stuttum fyrirvara og eftir stóð á Keflavíkurflugvelli draugaþorp, sannkallað draugaþorp þar sem engin starfsemi var og ekkert líf. Við blasti það verkefni að finna almennileg not fyrir þær eignir sem voru á svæðinu og voru satt að segja hannaðar fyrir annað en borgaraleg not, voru fyrst og fremst hannaðar sem samfélag til að þjóna hernaðarlegum verkefnum. Vissulega voru þar eignir sem gátu nýst í borgaralegum tilgangi en í verkefnum af þessum toga er brýnt að takist að laða að atvinnurekstur sem nýtt getur þær eignir sem fyrir eru með litlum fyrirvara. Þetta var ekki einfalt verk og það hefur verið viðurkennt. Það var viðurkennt hér á Alþingi fyrir ári þegar lög um Þróunarfélag Keflavíkur voru samþykkt án mótatkvæða. Í lögunum fólst að þróunarfélagið tæki við eignunum og hefði með höndum umsýslu þeirra og sölu. Það var því ljóst frá upphafi að félagið ætti að hafa það verkefni með höndum. Það er líka ljóst að frá upphafi var gert ráð fyrir að starfsemi félagsins væri ætlað að afla fjár til að standa að nauðsynlegri hreinsun á svæðinu.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni að almennt var ekki gert ráð fyrir að félagið greiddi arð í ríkissjóð. Ástæðan er mjög einföld. Það sá enginn fyrir að aðstæður yrðu þannig að félagið gæti yfir höfuð greitt arð í ríkissjóð. Almennar væntingar á þeim tíma, svo að það sé rifjað upp, voru þess eðlis að um væri að ræða eignir sem jafnvel væru ofmetnar þegar horft væri til hrakvirðisverðmætis upp á 11 milljarða og að kostnaður við hreinsun svæðisins gæti hlaupið á einhverjum milljörðum. Væntingarnar byggðust fyrst og fremst á því að það tækist að ná endum saman í þessum tveimur verkefnum.

Það er líka ljóst að það er ekkert áhlaupsverk að breyta draugaþorpi af þessum toga í lifandi bæ. Fyrir því er margþætt reynsla því þetta er ekki einstakt íslenskt fyrirbæri. Á undanförnum einum og hálfum áratug hefur verið mikið um lokanir herstöðva í allri Evrópu í kjölfar samdráttar Bandaríkjamanna og Kanadamanna í herafla í Evrópu. Það hefur verið viðurkennt af hálfu Evrópusambandsins að réttlætanlegt sé að veita sérstaka ríkisstyrki til verkefna af þessum toga. Meðal annars þess vegna er nú verið að breyta byggðakorti fyrir Ísland og gera Suðurnesin á ný styrkhæf til ríkisstyrkja frá stjórnvöldum til þess að mæta þeim samfélagslegu erfiðleikum sem upp rísa í kjölfar lokunar herstöðvarinnar. Það hefur sem sagt verið viðurkennt af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að forsendur séu til þess að veita ríkisstyrki svo að hægt sé að koma efnahagsþróun á svæðinu í gang.

Fyrir ári sá enginn fyrir, og fyrir því voru svo sem engin einföld rök, að íslenskt efnahagslíf yrði á slíkum yfirsnúningi það ár sem síðan er liðið að við skyldum í reynd hvorki taka eftir brottför varnarliðsins né heldur samdrætti um þriðjung í þorskveiðum þegar tillit er tekið til þjóðartekna í heild, þó að í báðum tilvikum hafi þessar breytingar haft staðbundin áhrif. Staðbundnu áhrifin af lokun varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli voru margfalt minni en flesta óraði fyrir.

Nú er staðan sú að sala þeirra íbúðaeigna sem seldar hafa verið á Keflavíkurflugvelli er komin í 14 milljarða og í heild stappar þetta nærri 18 milljörðum. Með öðrum orðum hafa þær eignir sem seldar hafa verið farið á a.m.k. tvöföldu því hrakvirði sem þær voru virtar á þegar tekið var við þeim fyrir ári. Fyrir utan þann pakka sem nú hefur verið seldur eru fleiri eignir sem ekki hafa verið seldar og þar fyrir utan eru eignir sem eru yfir höfuð ekki til sölu, sem íslenska ríkið hyggst halda til lengri tíma litið. Þetta allt þarf að hafa í huga þegar horft er á málið í heild sinni. Það þarf því að gæta sanngirni og hún er ekki alltaf einföld eða auðveld í meðförum þegar menn horfa til baka og meta aðstæður í ljósi þekkingar sem þeir hafa í dag en höfðu ekki á þeim tíma sem um ræðir.

Þá komum við að hinu aðlaðandi hugtaki „markaðsverði“. Athugasemdir þær sem bornar hafa verið fram hér og í fjölmiðlum undanfarið lúta að mínu viti einkanlega að tvennu. Annars vegar að markaðsvirði eignanna, þ.e. að eignir hafi verið seldar undir raunvirði, og hins vegar að mögulegu vanhæfi eða óeðlilegum hagsmunatengslum. Hvað markaðsvirðið varðar er það nú þannig að það hreyfist eftir framboði og eftirspurn á markaði.

Frá upphafi var það forsenda þingsins — það kom fram í meðförum Alþingis, það kom fram af hálfu ríkisstjórnar og það kom mjög skýrt fram af hálfu sveitarfélaga á Suðurnesjum — að eignirnar yrðu ekki seldar á almennum markaði. Um leið og búið er að setja þá forsendu að eignirnar verði ekki seldar á almennum markaði er ekki hægt að búast við því að fá markaðsverð fyrir þær. Ég held að það hljóti allir menn að skilja. Ef þú tekur eign og setur þér það markmið að þú munir ekki selja hana á markaði en ætlir samt að selja hana þannig að hún hafi ekki áhrif á markaðsverð sambærilegra eigna hlýturðu að þurfa að selja hana með öðrum hætti á undirverði. Það var beinlínis forsenda verkefnisins að eignirnar yrðu seldar á verði sem væri undir venjulegu markaðsverði á svæðinu. Menn eiga ósköp einfaldlega að viðurkenna það. Það var forsendan vegna þess að ef eignirnar hefðu verið seldar á markaðsverði á opnum markaði hefði jafnframt orðið verðfall á fasteignamarkaði á Suðurnesjum vegna offramboðs eigna, það var a.m.k. ótti Suðurnesjamanna. Það var þess vegna sem allar sveitarstjórnir á Suðurnesjum, hver og ein einasta, lagði höfuðáherslu á að eignirnar yrðu ekki settar á almennan markað heldur yrði þeim ráðstafað með öðrum hætti.

Það er því að mínu viti mjög óraunsætt og mjög óeðlilegt að koma nú með reglustiku eftirástaðreyndanna, leggja hana á það verkefni sem unnið hefur verið og gera kröfu um að markaðsverð hefði átt að fást fyrir eignirnar. (Gripið fram í.) Það lá alltaf ljóst fyrir að eignirnar ættu ekki að fara á markaðsverði, það var forsenda verkefnisins. Það er rétt að hafa það í huga.

Virðulegi forseti. Hinn þáttur þeirra athugasemda sem fram hafa verið bornar lýtur að mögulegu vanhæfi og ég tel eðlilegt að við tökum þær athugasemdir alvarlega. Það er mjög mikilvægt að við verkefni af þessum toga sé þess gætt að viðhafa vandleg vinnubrögð, að menn vandi sig sem kostur er og sinni verkinu eins vel og mögulegt er, gæti jafnræðis og gæti að gagnsæi og rekjanleika ákvarðana. Ég tók eftir því, og það hefur verið leitt í ljós, að þróunarfélagið auglýsti margsinnis og ítrekað eftir kaupendum að eignunum og af hálfu þróunarfélagsins er staðhæft að engin hærri tilboð hafi borist í eignirnar. Ég hef ekki séð neitt sem leyfir mér að vefengja þær staðhæfingar. Annað kann að koma í ljós en þannig hef ég heyrt málið reifað.

Ég fagna því að þróunarfélagið hafði á þessu ári frumkvæði að því að hafa samráð við Ríkisendurskoðun um starfsemi félagsins og um sölu eignanna. Ég hef heyrt að ríkisendurskoðandi hafi lýst því í morgun á fundi fjárlaganefndar að hann væri að kanna málið og hann mundi halda áfram að fara yfir það og gera stjórnsýsluúttekt á því. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegur vettvangur fyrir frekari athugasemdir um þennan þátt málsins. Það er alveg ljóst að ríkisendurskoðanda er treystandi, sem fulltrúa þingsins og endurskoðanda á vegum þingsins og eftirlitsmanni með framkvæmdarvaldinu fyrir okkar hönd, að kanna þetta mál að þessu leyti og gera þá grein fyrir því í skýrslu ef þar er pottur brotinn.

Ég held að góður lögmaður eins og hv. þm. Atli Gíslason eigi ekki að setja fram dæmi um vanhæfi sem felast í því að bæjarfulltrúi komi fram fyrir hönd félags þar sem annar bæjarfulltrúi er í forsvari fyrir annað félag. Það gerir engan vanhæfan, það veit hv. þingmaður. Þetta er grundvallaratriði í vanhæfisreglum stjórnsýsluréttarins. Það kunna að vera einhver önnur dæmi og það er rétt að yfir þau sé farið á vandaðan og faglegan hátt, en ég tel ekki eðlilegt að gefa út stórar yfirlýsingar sem kannski byggjast ekki á sterkari grunni en þau dæmi sem ég hef nefnt.

Virðulegi forseti. Ég tel þessa umræðu af hinu góða. Það er mjög mikilvægt að gagnsæi og rekjanleiki sé til staðar þegar hið opinbera kemur af sér eignum, hvort sem það eru verðmætar eignir eða eignir eins og þær sem hér um ræðir, eignir sem allir nálguðust á sínum tíma út frá því að um einhvers konar skransölu væri að ræða. Það bjóst enginn við að um veruleg verðmæti yrði að ræða. Við getum dregið þann lærdóm af þessu máli að í kviku viðskiptaumhverfi, þar sem hlutir geta gerst hratt, er rétt að gera ráð fyrir því að verkefni af þessum toga geti ekki einungis falið í sér tap eða að menn komi hugsanlega út á núlli heldur geti líka skapast hagnaður. Menn eiga því að nálgast öll slík verkefni með það fyrir augum að í eignunum geti falist meiri verðmæti en menn halda við fyrstu sýn.