135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:20]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er margt ankannalegt í þessu máli og ég hefði kosið að öll gögn hefðu legið uppi á borðinu. Það er skrýtið að í sömu andrá og verið er að ræða um breytt vinnubrögð þingsins og að auka virðingu hins háa Alþingis skuli maður standa frammi fyrir því að fá skýrslu forsætisráðherra hér hálftíma áður en maður kemur í pontu og að gögn sem hv. þingmenn hafa margbeðið um skuli ekki liggja fyrir.

Ef til stóð að gæta þess að eyðileggja ekki þann markað á fasteignum sem fyrir er á Suðurnesjum held ég að menn hefðu átt að vanda sig betur. Það lá fyrir að eignirnar yrðu seldar á undirverði og þá hefðu menn átt að fara aðra leið en hér var gert. Ég held að það að stofna einkahlutafélag um söluna eða umsjón þessara fasteigna hafi verið röng ákvörðun. En það er hægt að vera vitur eftir á í þeim efnum.

Ég tel að gagnrýni á söluferlið eigi að miklu leyti rétt á sér. Samkvæmt lögum átti að selja eignirnar með aðkomu Ríkiskaupa. Í ljósi þessa máls er eðlilegt að kanna hvort brestir hafi verið í útboðsferlinu, hvort útboðsskilmálar hefðu ekki þurft að vera skýrari og hvort auglýsingar á eignum hafi verið eðlilegar og nægjanlegar. Ég tel ekki nóg að auglýsa í blöðum og á heimasíðu félagsins þegar um svona stóra og mikla sölu á eignum ríkisins er að ræða.

Í samningi um þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á þróunarsvæði við Keflavíkurflugvöll er kveðið á um í grein 7.2 að verksali, þróunarfélagið, skuli „ávallt við sölu, leigu eða aðra ráðstöfun á eignum ríkisins gæta þess að mismuna ekki aðilum og skal í því skyni tryggja að umræddar eignir verði auglýstar opinberlega til sölu eða leigu og val á viðsemjendum byggist ekki á öðrum sjónarmiðum en mati á hagstæðasta tilboði“.

Svo kemur fram, virðulegi forseti, í lögum um heimildir félagsins nr. 176/2006 að þróunarfélagið hafi heimildir til þess að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæðinu.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að félagið sjálft mun gagnvart þriðja aðila lúta sömu reglum og ríkið varðandi t.d. útboðsskyldu verkefna og gagnsæi og jafnræði í rekstri og umsýslu verkefna. Ég tel að þetta sé með öðrum orðum skýrt, fylgja hafi átt venjulegum reglum um útboð og sölu á eignum ríkisins og fela Ríkiskaupum söluna.

Varðandi hæfisreglur vil ég benda á að það er undarlegt að sjálfstæðismenn skuli vera allt í kringum málið. Hv. þingmenn hafa rakið hér aðkomu sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ og ég tel eðlilegast til að losna við þær efasemdir sem vakna og grunsemdir um óeðlilega viðskiptahætti að öll gögn komi upp á borðið.

Hér ræddi áðan hv. þm. Árni Páll Árnason um hæfisreglur stjórnsýslulaga og sagði að þær ættu ekki við þegar bæjarstjóri sem væri aðili að einu félagi væri að selja eign til annars bæjarfulltrúa sem væri í öðru félagi. Það getur vel verið en svona viðskipti hljóta að vekja upp margar spurningar. Það er einfaldlega þannig að hæfisreglur stjórnsýslulaga ná (Forseti hringir.) einnig til bæjarfulltrúa sem selja eigur (Forseti hringir.) til aðila sem stunda með þeim alls kyns frístundir og tengjast þeim með þeim hætti. (Forseti hringir.)