135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:25]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns að öll gögn í þessu máli verði lögð fram. Það er lykilatriði. Það er verið að selja eigur ríkisins og þá þarf allt að vera uppi á borðum. Ég hef setið síðustu tvo daga í fjárlaganefnd þar sem nokkuð vel hefur verið farið yfir þetta mál. Þar hafa m.a. verið kynntir samningar, sumt í þessum samningum hefur að vísu verið bundið trúnaði sökum hagsmuna kaupanda, en það er ekkert hægt að lesa út úr þeim að kaupendum hafi verið mismunað. Það hefur einnig komið fram á þessum fundum fjárlaganefndar að ríkisendurskoðandi hefur skoðað þessa samninga, farið vandlega yfir þá og niðurstaða hans er sú að þeir séu þannig úr garði gerðir að þeir séu bókunarhæfir, þ.e. að hægt sé að færa verðmæti þeirra inn í ríkisreikning. Það er niðurstaða ríkisendurskoðanda og á þeirri forsendu byggir meiri hluti fjárlaganefndar þá niðurstöðu sína að þetta skuli fært inn í ríkisreikning. Ríkisendurskoðandi hefur einnig sagt að eftir að hafa skoðað þetta muni hann fara í stjórnsýsluúttekt á þessu félagi og skoða hvernig aðferðafræðin hafi verið, hvort þarna hafi verið um óeðlileg tengsl að ræða og hvort á ferðinni séu hlutir sem ekki standist lög.

Ég lít því svo á að málið sé í réttum farvegi. Mikilli tortryggni hefur verið sáð um þá vinnu sem unnin hefur verið, um að ekki hafi verið rétt að verki staðið. Ýmislegt í þeirri gagnrýni ber með sér að það sé full ástæða til að taka hana alvarlega. Þegar ríkisendurskoðandi velur þá leið að fara í stjórnsýsluúttekt í framhaldi af umræðunni hljótum við a.m.k. að vera á réttri leið. Það er mikilvægt að í þessari umræðu komi fram hvernig þessu máli er háttað og hvernig það er statt nákvæmlega núna. Miðað við það sem komið hefur fram held ég að ekki neitt konkret, ef ég má leyfa mér að sletta, hafi verið lagt fram um að lög og reglur hafi verið brotnar. (Gripið fram í.) Hins vegar hefur verið varpað upp ákveðnum röksemdum sem gera það að verkum að tortryggni hefur skapast í umræðu hér og í samfélaginu og þá tortryggni þarf að hreinsa út af borðinu. Það má heldur ekki vera þannig að þegar ríkið selur eignir sé unnið á þann hátt að það þoli ekki dagsljósið. Það er alveg fráleit staða. Þess vegna held ég að það að ríkisendurskoðandi hafi nú þegar farið yfir þessa samninga, fjallað um það hvort verðmætin sem þeir bera með sér séu trygg, hvort þau séu eðlileg og tryggingar til staðar og hægt sé að setja þetta inn í ríkisreikning, hafi verið fyrsta skrefið af hans hálfu við að fara yfir þetta. Síðan ætlar ríkisendurskoðandi að gera stjórnsýsluúttekt og fara yfir þetta mál. Ég held að þingið sé búið að setja þetta mál í réttan farveg. Hvað síðar kann að koma út úr því veit ekki sá sem hér stendur frekar en aðrir. Ég held að þingið sé á réttri leið og sé ekki að bregðast eftirlitsskyldu sinni eins og hefur verið látið í veðri vaka, þ.e. að gögnum hafi verið haldið frá hv. alþingismönnum þó að á hinn bóginn sé rétt að þeir hafi ekki fengið allt sem þeir hafa beðið um. Ég á ekki von á öðru en að áður en yfir lýkur verði allt uppi á borðum, að ríkisendurskoðandi fari yfir það sem hér skiptir máli og komist að niðurstöðu. Sætti menn sig ekki við þá niðurstöðu og þá skoðun kemur kannski aftur til kasta þingsins.

Ég held að vegna þeirrar miklu tortryggni sem vakin hefur verið í samfélaginu og hér á þingi sé rétt að fara þessa leið núna. Hvort það kallar síðan á frekari umræðu um málið kemur í ljós en ég held að þingið standi sína plikt hvað þetta tiltekna mál varðar.