135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:30]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að herinn fór frá Suðurnesjum og margir bjuggust við að það yrði mikið áfall fyrir byggðarlögin á því svæði sem eðlilegt er. Það ánægjulega sem hefur gerst síðan þá er að þróunin hefur orðið með þeim hætti að íbúðarbyggingar eru í gangi um öll Suðurnes sem aldrei fyrr. Atvinnulíf stendur þar styrkum fótum þó að ekki hafi allir þeir sem áður unnu á vellinum fengið jafnvellaunaða vinnu og þeir höfðu þar. Engu að síður er blómlegt um að litast á Suðurnesjum og það kemur fram í mati manna á þeim verðmætum sem er að finna á Keflavíkurflugvelli.

Áður var við því búist að þessar eignir yrðu ekki líkleg söluvara og að ekki væri þess að vænta að menn gætu fengið mikil verðmæti fyrir þær byggingar eða komið þar inn með nokkra starfsemi sem heitið gæti. Þannig var mat manna á sínum tíma, og ekki fyrir svo mjög löngu síðan. Þetta hefur breyst til hins betra sem hefur auðvitað í för með sér aðra hluti sem þarf að taka til athugunar og hafa verið nefndir í þessari umræðu. Ég held að það sé rétt að menn hafi í huga hversu mjög ástandið hefur breyst til hins betra og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, það er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið á svæðinu og að bjart er fram undan fyrir íbúðarbyggðina hvað varðar atvinnulíf og búsetu.

Starfsemi þróunarfélagsins er umfangsmikil. Það verður auðvitað að fara vandlega yfir það mál lið fyrir lið. Í fyrsta lagi verða öll gögn málsins að liggja fyrir í opinberri umræðu. Allir kaupsamningar verða að vera uppi á borðinu. Það er ekki ásættanlegt að enn skuli gerðir kaupsamningar um ráðstöfun eigna ríkissjóðs fyrir milljarða króna ekki vera opinber gögn. Það verður vonandi innan fárra daga, a.m.k. hefur ríkisendurskoðandi upplýst fjárlaganefnd um það. Það er fagnaðarefni.

Ég legg áherslu á að Alþingi getur ekki sætt sig við að menn sem fara með umboð þess til að ráðstafa eignum ríkisins geri það á þann veg að þeir haldi leyndum upplýsingum fyrir Alþingi og þjóðinni. Það er einmitt kjarni málsins í stöðu Alþingis að það eigi rétt á öllum upplýsingum þá og þegar til að koma í veg fyrir að aðilar sem sitja í stofnun eins og stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar geti látið sér detta í hug að gera samninga um sölu á eignum ríkissjóðs með ákvæðum sem þeir vilja ekki að verði opinber. Það er algerlega óásættanlegt, virðulegi forseti.

Í öðru lagi þurfa menn að vega og meta söluverð út frá þessum breyttu forsendum á mati stöðu svæðisins sem hefur áhrif á verðmat eignanna. Það er kannski viðkvæmasti hluturinn í þessu máli. Menn hafa ástæðu til að ætla að söluverð eignanna sé undir því verði sem ætla má að fengist fyrir þær á almennum markaði. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé því að það er ekki tímabært að draga þær ályktanir, ekki eru öll gögn komin fram og ekki allar upplýsingar sem liggja fyrir sem við þurfum að hafa til þess að móta okkur skoðun á því.

En gleymum því ekki að ef um það er að ræða að menn ráðstafi vísvitandi eignum ríkissjóðs á verði sem er lægra en ætla má að hægt sé að fá erum við að gera það sama og var gert í REI-málinu og vakti reiði þjóðarinnar. Þá er verið að ráðstafa til tiltekinna einstaklinga verðmætum á verði sem er lægra en ætla má að sé sanngjarnt. Þennan þátt málsins þarf að upplýsa, það þarf að fara yfir hann allan lið fyrir lið og ríkisendurskoðandi hefur boðað að hann muni gera stjórnsýsluúttekt á þessu máli. Hann mun væntanlega taka þennan þátt málsins fyrir. Ég held að það sé rétt að bíða eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar áður en lagt verður mat á það hvort um sé að ræða eðlileg eða óeðlileg viðskipti í þessu tilviki. Vissulega er það svo, og það eru réttmætar efasemdir sem hér hafa komið fram, að þær upplýsingar sem liggja fyrir opinberlega (Forseti hringir.) eru ekki til þess fallnar að eyða þeirri tortryggni sem vakin hefur verið.