135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki svo að upplýsingum í þessu máli hafi verið leynt eða það standi til. Þeim sem eru í forsvari fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar er kappsmál að koma upplýsingum á framfæri en þeir verða að virða viðskiptareglur gagnvart gagnaðilum í þessu. Þó er það þannig, eins og fram kom í umræðunni, að þessir samningar hafa verið kynntir fyrir fjárlaganefnd. Ríkisendurskoðun hefur þá að sjálfsögðu undir höndum og ég geri ráð fyrir því að þessir gagnaðilar séu því ekki andvígir, ef til þeirra verður leitað, að þetta verði allt saman gert opinbert. Svo er það líka þannig, eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði, að þetta verða opinber þinglýsingargögn þegar búið er að þinglýsa þessum skjölum og þegar er búið að þinglýsa hluta þeirra. Aðdróttanir um að þetta sé eitthvað óeðlilegt eða aðfinnsluvert eru rangar. Það er rangt hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að hann geti sem þingmaður snúið sér að hvaða opinberum aðila sem er og heimtað upplýsingar út á það að hann sé þingmaður. Það er ákveðið ferli í gangi hvað það varðar. Þingið á sinn rétt en einstakir þingmenn geta ekki gengið inn í hvaða opinbera stofnun sem er og krafist upplýsinga, eins og hann veit náttúrlega sem reyndur lögmaður.

Hvað varðar vanhæfi einstakra manna í þessu máli er sjálfsagt að fara yfir það, en ég segi að maður sem er tilnefndur af sveitarfélögunum til að sitja í stjórn þróunarfélagsins, er jafnframt bæjarstjórinn á svæðinu, en situr jafnframt sem slíkur í stjórn félagsins sem þarna á hlut að máli, þ.e. Keilis, er ekki þar með vanhæfur þótt hann gegni störfum sínum á tvenns konar vettvangi. Mér er ekki kunnugt um að Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hafi nokkurra einustu persónulegra hagsmuna að gæta í þessu máli.

Talið um kóngulóarvefinn og upptalningin hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni er fyrir neðan allar hellur og hið sama er að segja um aðdróttanir hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri að selja sjálfum sér. Í gær var verið að ganga frá samningi við þjóðkirkjuna. Er hún Sjálfstæðisflokkurinn? Er netþjónabúið Verne Sjálfstæðisflokkurinn? Er kvikmyndaverið sem þarna kemur Sjálfstæðisflokkurinn? Eða Keilir og Háskólavellir, háskólastarfsemin þarna? Þetta er ómerkilegur málflutningur, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Það er ekki hv. þingmanni sæmandi sem hafði í fyrra í umræðum um þetta mál það helsta áhyggjuefni að þróunarfélagið fengi ekki nægilegt tannfé eins og hann orðaði það, það fengi ekki nógu mikla peninga úr að spila til að geta sinnt til að mynda hreinsun á verkefnum. Nú er búið að tryggja það allt saman eins og ég sagði áðan. Nú hefur þetta félag með þeim skjótu ráðstöfunum sem það hefur gripið til aflað sér fjármuna til að geta ráðist í alla þessa hluti alveg eins og eðlilegt er, ætlast verður til og alltaf var meiningin.

Hv. þm. Bjarni Harðarson þarf að kynna sér betur reglurnar um færslur í ríkisreikningi og fjáraukalög. Miðað við málflutning hans hér botnar hann hvorki upp né niður í því hvernig á þessum færslum stendur. Það eru ástæður fyrir því að ríkisendurskoðandi telur að það eigi að færa þetta í fjáraukalög ársins í ár og í fjárlög næsta árs. Það er ekki einhver tilviljun eða eitthvað sem kemur af himni ofan. Það er vegna þess að ríkið er eigandi þessara eigna — en ekki félagið. Félagið annast umsýslu þeirra eins og nánar er skilgreint í þjónustusamningnum og í lögunum en eignirnar eru áfram eignir ríkisins og þess vegna ber að færa söluandvirði þeirra og hagnaðinn af þeirri sölu til tekna í ríkissjóði. Og það mun auðvitað koma okkur öllum til góða þegar fram í sækir og við getum farið að ráðstafa þessu til annarra þarfa umfram það sem félagið sjálft þarf til þess að ganga frá svæðinu og gera það upp.

Auðvitað var mikilvægt að reyna að selja þessar eignir í stað þess að vera með þær áfram í rekstri á vegum félagsins vegna þess að eigninni fylgir mikill kostnaður. Það er mjög dýrt að halda þessum eignum gangandi. Það kostar nokkuð hundruð milljónir bara að hita þetta húsnæði allt og halda þarna uppi öryggisgæslu, borga fyrir rafmagnið sem í þetta fer o.s.frv. Því fyrr sem sá kostnaður leggst á herðar annarra en opinbers aðila, ríkisins, því betra.

Allt hnígur að sömu niðurstöðu, þróunarfélagið og stjórn þess hefur staðið sig afar vel í þessu verkefni. Það eru engin leyndarmál hér. Það er ekkert að fela í þessu máli. Það mun verða upplýst í þeirri stjórnsýsluúttekt spái ég sem ríkisendurskoðandi hefur boðað og þá geta menn snúið sér að öðrum verkefnum en að níða skóinn af því fólki sem kemur nálægt þessu máli.