135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar. Rétt er að rifja upp nokkur atriði áður en ég kem að því hvernig málinu, frumvarpi til fjáraukalaga sem hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir hér, hefur undið fram frá því að það var fyrst kynnt í byrjun októbermánaðar. Þá kom umrætt fjáraukalagafrumvarp til meðhöndlunar í fjárlaganefnd. Nefndin leitaði fjölmargra skýringa hjá fjármálaráðuneytinu og fagráðuneytum varðandi beiðnir um aukafjárheimildir. Á þeim tíma var enn fremur óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun.

Þegar við tókum fjáraukalagafrumvarpið til meðhöndlunar fyrir viku síðan gerði meiri hluti nefndarinnar 54 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals námu 4,9 milljörðum til hækkunar og voru þar einstaka tillögur skýrðar í umræddu nefndaráliti. Þess var einnig getið að endurskoðuð tekjuáætlun gerði ráð fyrir því að tekjur mundu aukast um 8,2 milljarða en jafnframt var lagt upp með að gerðar yrðu tvær breytingartillögur við 4. gr. frumvarpsins eða 6. gr. fjárlaga 2007. Meiri hluti fjárlaganefndar lýsti því yfir að milli 2. og 3. umr. þyrfti að skoða framhaldsskóla almennt, rekstrarkostnað sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili og gera tillögu um skiptingu fjárheimilda á einstaka stofnanir.

Enn fremur mundi nefndin skoða á milli umræðna málefni er varða eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll enda hafði komið beiðni frá fjármálaráðuneytinu um að tekjufæra sölu á eignum á Keflavíkurflugvelli auk ákveðinna gjaldfærslna sem tengjast Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Ég vil í því sambandi vísa til umræðu sem var í morgun og mun þar af leiðandi ekki fara efnislega inn í þann hluta nefndarálitsins að öðru leyti en því sem ég tel ástæðu til.

Undir nefndarálitið skrifuðu á sínum tíma hv. þingmenn auk mín, varaformaður fjárlaganefndar Kristján Þór Júlíusson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Björk Guðjónsdóttir og Bjarni Harðarson með fyrirvara.

Þegar þeim þætti var lokið og umrædd tillaga hafði farið til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu á þinginu, fór frumvarpið aftur til afgreiðslu í fjárlaganefnd. Nefndin hefur sent frá sér framhaldsnefndarálit frá meiri hluta nefndarinnar og þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti, stofnunum og Ríkisendurskoðun varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Meiri hluti nefndarinnar gerir breytingartillögu við sundurliðun 1 vegna sölu eigna á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll sem nemur 15,7 milljörðum kr. til hækkunar á tekjum.“

Og ég held áfram, virðulegi forseti.

„Ríkisendurskoðandi hefur staðfest við nefndina að umræddar tekjur byggist á yfirferð embættisins á sölusamningum og að þeir séu að mati embættisins tryggir. Þá gerir nefndin breytingartillögur við sundurliðun 2 sem nema alls 1.356,9 millj. kr. til hækkunar gjalda. Þar vegur þyngst kostnaður í tengslum við sölu eigna á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll, alls að fjárhæð 1.170 millj. kr. Breytingartillögum þessum fylgja þrjú yfirlit til sundurliðunar á fjárheimildum sem voru til skoðunar á milli umræðna. Eftir 2. umræðu var skipað í þrjá starfshópa til að vinna að þeirri sundurliðun og leituðu hóparnir til fjölmargra aðila. Í hópi sem vann að skiptingu fjárheimildar til framhaldsskóla voru Illugi Gunnarsson, Guðbjartur Hannesson og Guðjón A. Kristjánsson, í hópi sem vann að skiptingu fjárheimildar til sýslumannsembætta voru Ármann Kr. Ólafsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Bjarni Harðarson og í hópi sem vann að skiptingu fjárheimildar til öldrunar- og heilbrigðisstofnana voru Ásta Möller, Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason.“

Ég vil nota tækifærið sem formaður fjárlaganefndar og þakka nefndum hv. þingmönnum sem allir eiga sæti í fjárlaganefnd fyrir góð störf í starfshópunum og byggir framhaldsnefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar á umræddum niðurstöðum um skiptingu á óskiptum fjárheimildum (Gripið fram í.) — á óskiptum fjárheimildum, ég tek það fram, sem voru afgreiddar hér frá þinginu.

Ég hef einnig lýst því yfir að vissulega geta verið ólíkar skoðanir um fjárheimildir sem hvort sem þær koma til afgreiðslu í fjáraukalögum eða fjárlögum. Á hinn bóginn ítreka ég að hv. þingmenn stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu lögðu sig fram um það að fara yfir umrædd yfirlit og lögðu metnað sinn í að skipta fé með réttmætum hætti þrátt fyrir ólíkar skoðanir til hugsanlega fjárheimildanna.

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir helstu skýringum við einstaka breytingartillögur. Gerð er tillaga um 27,8 millj. kr. aukafjárveitingu til háskólans á Bifröst til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla og styrkja núverandi rekstrargrunn. Þá er gerð tillaga um 5 millj. kr. aukaframlag til viðbótar við umræddar 300 millj. kr. sem voru óskiptar í frumvarpinu eftir 2. umr. fyrir framhaldsskóla almennt til að mæta sjónarmiðum sem fram komu í umræddum starfshópi. Sundurliðun umræddra fjárheimilda er sýnd í sérstökum yfirlitum, þ.e. hvað hver og einn framhaldsskóli fær og er gerð tillaga um í álitinu og tillögu meiri hlutans.

Einnig er lagt til að fjárheimild til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 70 millj. kr. og gerð er tillaga um að ráðstafa 271 millj. kr. af ónotuðum fjárheimildum til öldrunarstofnana til að koma til móts við rekstrarhalla þeirra til ársloka 2007. Jafnframt er gerð tillaga um óskipt framlag til minni öldrunarstofnana og af framangreindri 271 millj. kr. fjárheimild er lagt til að 23,8 millj. renni til sjö stofnana sem tilgreindar eru í nefndarálitinu. Það sem eftir stendur, 247,2 millj. kr., verði skipt milli stofnana sem eru sundurliðaðar í umræddu nefndaráliti.

Gerð er tillaga um 60 millj. kr. aukafjárveitingu til stofnunarinnar Reykjalundar í Mosfellsbæ vegna uppsafnaðs halla og styrkingar á rekstrargrunni. Jafnframt er gerð tillaga um 10 millj. kr. hækkun á liðnum Heilbrigðisstofnanir almennt sem kemur þá til viðbótar við þær 250 millj. kr. sem lagðar voru út í 2. umr. en skiptingin á fjárhæðinni varðandi heilbrigðisstofnanir, 260 millj. kr., er sýnd í sérstökum yfirlitum merkt Yfirlit 3 í breytingartillögu meiri hlutans.

Að lokum vil ég koma að viðbótarheimildum við samgönguráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytisins verði aukin um 21,9 millj. kr. Þar er gerð tillaga um 17,1 millj. kr. aukið framlag til handa Flugmálastjórn Íslands vegna aukins kostnaðar við leiguhúsnæði en húsnæðismál stofnunarinnar voru leyst upp með því að gera viðbótarleigusamning við leigusala sem gilti frá 1. apríl 2007. Jafnframt er gerð tillaga um 12 millj. kr. framlag vegna kostnaðar við eftirlit með flugvernd á alþjóðaflugvöllum.

Þá er lögð til fjárheimild til iðnaðarráðuneytisins um 55 millj. en það er aukafjárveiting til stofnkostnaðar hitaveitna samanber reglugerð 284 nr. 2005 sem byggist á heimild í lögum um niðurgreiðslu til húshitunar, lögum nr. 78/2002.

Að lokum vil ég gera grein fyrir umræddri fjárheimild til fjármálaráðuneytisins um 1.170 millj. kr. en gert er ráð fyrir að þar sé um að ræða kostnað í tengslum við sölu eigna á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, að við í fjárlaganefnd höfum farið yfir gögnin sem okkur hafa borist og einnig höfum við fengið álit frá efnahags- og skattanefnd. Í ljósi þeirra funda sem við höfum átt við Ríkisendurskoðanda, auk þeirra svara sem fjármálaráðuneytið hefur sent nefndinni, teljum við að ljóst sé að um 1.170 millj. kr. kostnað sé að ræða á árinu 2007. Þar eru aðallega útgjöld í tengslum við lagfæringar og breytingar á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand og hins vegar er vísað til þess að áætlað verðmæti seldra eigna á árinu nemi 15,7 milljörðum kr. eins og gert er ráð fyrir í breytingu á tekjuhlið frumvarpsins.

Ég geri ekki frekar grein fyrir umræddum skiptingum en með fylgir framhaldsálit meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Umræddar tillögur eru einnig sundurliðaðar með tilvísun til þess sem ég sagði í ræðu minni. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan í álitinu og gerð tillaga um í sérstökum þingskjölum. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn auk mín, Kristján Þór Júlíusson, Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Lúðvík Bergvinsson, Guðbjartur Hannesson, Sigurður Kári Kristjánsson og Árni Johnsen.

Ég þakka fjárlaganefndinni allri fyrir góð störf á umliðnum dögum og vikum. Við höfum lokið við að koma álitum og tillögum okkar út úr nefndinni vegna 3. umr. fjáraukalaga og ég veit að minni hluti fjárlaganefndar mun gera grein fyrir tillögum sínum á eftir. Ég þakka minni hlutanum fyrir góð störf, jafnt sem meiri hluta, því að vissulega kom hann að efni tillagna okkar og tók undir ákveðin atriði þrátt fyrir að leiðir hafi stundum skilið í nefndarálitum. Um leið þakka ég starfsfólki nefndasviðs, þá sérstaklega fjárlaganefndarskrifstofu, fyrir góð störf og aðstoð við okkur í fjárlaganefndinni.