135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það sem svo að hv. þingmaður geti ekki svarað því í ræðustól hvort hann dragi í efa skýringar á yfirlýsingu ríkisendurskoðanda og starfsmanna Ríkisendurskoðunar fyrir nefndinni. Auðvitað hefur nefndin óskað eftir gögnunum og þau munu koma. Þau verða öll opinber þegar búið er að þinglýsa samningunum og þess háttar. Hins vegar liggja fyrir þær skýringar sem ríkisendurskoðandi gaf. Ég spurði einfaldlega: Dregur hv. þingmaður í efa þær skýringar sem ríkisendurskoðandi lýsti fyrir nefndinni?

Ég fagna því auðvitað að hv. þm. Jón Bjarnason lýsi yfir að hann vilji vera með í þeirri vegferð og breytingaferli sem boðað hefur verið .

Ég verð að segja að stundum er ómaklegt í ræðum um fjárlög og fjáraukalög að segja að breytingaferlið gangi of hægt fyrir sig þegar við höfum rætt málin fram og til baka í nefndinni. Menn vita á hvaða hraða við erum þar, verkin sýna merkin í þeim efnum. Það á því ekki að bjóða okkur hinum nefndarmönnum upp á að hlusta á að við vinnum verkin allt of hægt og breytingaferli gangi of hægt fyrir sig.

Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Jón Bjarnason hefur verið með einhverjar tillögur í þessum efnum. Ég viss um að hann getur þá setið í hásetasætinu eins og við hin í breytingaferlinu. Um leið hvet ég hv. þingmann til þess að sýna þá þann vilja í verki, hvort sem er á nefndarfundum eða hér í ræðustól á þinginu. Ef menn ætla að slíta sig frá öðrum nefndarmönnum í nefndinni þá gera þeir það með orðum þeir láta falla í þingsölum.