135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:26]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að lesa mitt ágæta frumvarp og kemur þar ýmislegt fram. Ég dreg ekki í efa einlægan vilja hv. þingmanns til að taka á málinu.

Ég vil þó minna á að við erum búin að hafa ríkisstjórnina í hálft ár og taka hefði átt fastari tökum á fjáraukalagagerðinni í ár, það er ekki bara mín persónulega skoðun, þótt ég virði og meti ákveðnar tilraunir og vilja hjá hv. formanni fjárlaganefndar. Ég tel að hann að sýni gott frumkvæði í þeim efnum og vona að verði framhald á. Ég óska eftir góðu samstarfi um það og kem að því alveg heill, hv. þingmaður þarf ekki að efast um það. Ég frábið mér orðræðu um annað.

Varðandi ríkisendurskoðanda og ábyrgð og hlutverk fjárlaganefndar þá minni ég á að nú er allt í einu erfitt — frú forseti, mér þykir það mjög óþægilegt þegar verið er að ræða svona mikilvægt mál eins og 14,5 eða 15 milljarða að verða þá að vísa til orða sem falla inni á nefndarfundi um réttmæti þess að þau séu þar færð.

Að því er mig minnir, hv. þingmaður getur þá leiðrétt mig, sagði ríkisendurskoðandi eitthvað í þá veruna að bókhaldslega séð teldi hann fært að færa tölurnar með þessum hætti. Hvort bakgrunnur þeirra væri eðlilegur, vildi ríkisendurskoðandi að mínu mati hvorki játa né neita. Þannig stendur málið að mínu mati. Þess vegna tel ég það skyldu fjárlaganefndar að ganga (Forseti hringir.) úr skugga um að allur bakgrunnur og öll umgjörð talnanna séu rétt.