135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:52]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni orð hans áðan. Ég vil jafnframt þakka honum samstarfið í fjárlaganefnd þingsins og votta að það hefur verið mjög gott og byggt á heilindum.

Það kom fram hjá hv. þingmanni undir og eftir miðja ræðu hans að hann fjallaði mikið um færslur og tillögu fjárlaganefndar um færslu á tekjum og gjöldum vegna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Þau orð komu þar fyrir í ræðu hv. þingmanns sem voru eftirfarandi: hönnuð atburðarás, eignatengsl, ættartengsl, persónulegir hagsmunir og síðan lagði hann út frá þeim. Það eru atriði sem hefur verið upplýst að verða örugglega tekin til athugunar í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.

Það vill svo til að þrátt fyrir yfirgripsmikla þekkingu hv. þingmanns á bókhaldi og reikningsskilum þá ber ég meiri virðingu fyrir skoðun og þekkingu Ríkisendurskoðunar. Ég styð því þá tillögu sem við gerum varðandi þetta.

Það er hins vegar tvennt sem ég vil nefna og spyrja hv. þingmann að í tengslum við þetta. Við 2. umr. lýsti hann því yfir að hann væri algerlega á móti halaklippingum stofnana. En hér liggur fyrir tillaga um 1.200 millj. kr. útgjöld til halaklippinga á stofnunum sem hann flytur ásamt Jóni Bjarnasyni.

Einnig varaði hv. þingmaður við 2. umr. við aukinni þenslu og kvartaði mikið yfir því að útgjaldarugl væri í fjárlögunum. Hér liggur sömuleiðis fyrir aftur þessi 1.200 millj. kr. tillaga. Þá spyr ég hv. þingmann hvernig standi á þessari viðhorfsbreytingu. Leiddi þessi skilnaður á milli meiri og minni hluta í nefndinni til þess að hann skipti um skoðun?