135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:04]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Viðskiptanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Guðmund Bjarnason frá Íbúðalánasjóði, Guðjón Rúnarsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.

Í frumvarpinu er kveðið á um álagningarstofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skila viðskiptaráðherra á hverju ári skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Gefi niðurstaða skýrslunnar tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldi leggur viðskiptaráðherra fram frumvarp þar að lútandi.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rekstrarfélaga, kauphalla og verðbréfamiðstöðva lækki og álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs, hækki. Lögð er til einföldun á álagningarstofni vátryggingafélaga þannig að eftirlitsgjald verður einungis reiknað af einum álagningarstofni í stað þriggja stofna samkvæmt gildandi lögum. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakt eftirlitsgjald verði lagt á útgefendur fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi.

Viðskiptanefnd leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að í stað orðsins „álagningargrunnur“ í 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins komi „álagningarstofn“ en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að síðarnefnda hugtakið komi alfarið í stað hins fyrra.

2. Þá er lögð til önnur skipting álagningarstofns viðskiptabanka annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar. Breytingartillagan hefur þau áhrif að eftirlitsgjald viðskiptabanka hækkar um samtals 13,6 millj. kr. en eftirlitsgjald vátryggingafélaga lækkar um samsvarandi fjárhæð.

3. Þá er lagt til að hugtakið „skipulegir tilboðsmarkaðir“ í 5. tölul. 1. efnismgr. 3. gr. falli brott í samræmi við lög nr. 107/2007.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, sem er nr. 359.

Árni Páll Árnason, Höskuldur Þórhallsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Atli Gíslason skrifar undir álit þetta með fyrirvara en hann sat fund fyrir Jón Bjarnason.

Jón Magnússon er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir þetta álit skrifa Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Atli Gíslason, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Birkir J. Jónsson og Björk Guðjónsdóttir.

Þá hef ég farið yfir nefndarálitið. Mig langar til að draga það einnig fram í 2. umr. um þetta mál að við erum að auka útgjöld til Fjármálaeftirlitsins sem er auðvitað fjármagnað með þessu sérstaka eftirlitsgjaldi um 52% á milli ára. Það er alveg gríðarleg hækkun á fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins í þessu frumvarpi. 52% á milli ára sýnir auðvitað að verkefni Fjármálaeftirlitsins hafa vaxið gríðarlega undanfarin ár og missiri og meðal annars sökum svokallaðrar heimaríkisreglu reynir meira á Fjármálaeftirlitið en áður. Sú regla miðast við að íslenska Fjármálaeftirlitið hafi eftirlitshlutverk gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum á erlendri grund. Þetta helst því að sjálfsögðu í hendur við útrás íslensku fjármálafyrirtækjanna og erum við að fylgja því og samráðsnefndin að fylgja því í verki með þessari stórfelldu hækkun til Fjármálaeftirlits, eins og ég segi, um 52%.

Í þessu samhengi er oft talað um fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins og ég vil líka draga það fram í þessari umræðu að það eftirlit ber að efla og það hefur verið að eflast.

Ég vil draga fram tvær tölur til að sýna að það eftirlit hefur sömuleiðis verið að fylgja eftir Fjármálaeftirlitinu hvað varðar fjárveitingar. Þó að enn fari talsvert meira í Fjármálaeftirlitið erum við hins vegar að sjá að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum á því sem liggja hér fyrir þingi er gert ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið fái 30% meiri fjárveitingu á milli ára. Það er auðvitað gríðarleg hækkun. Ef við lítum til tveggja ára þá hafa fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins aukist um 63% á einungis tveimur árum. Þingheimur og þjóðin sér því að hér er á ferðinni mikil áhersla og forgangsröðun í þágu Samkeppniseftirlitsins. Hér er ríkisstjórn við völd sem ber neytendamálin fyrir brjósti og sýnir í verki að við viljum styrkja Samkeppniseftirlitið. Eins og ég segi, milli ára er aukningin 30% og milli tveggja ára er aukningin 63%.

Að sjálfsögðu get ég tekið undir þær raddir að Samkeppniseftirlitið þarf að eflast enn frekar. Það þarf að vera í stakk búið til að fara í frekari rannsóknir og kannanir á mörkuðum í heild sinni. Það þarf að hafa meira svigrúm til frumkvæðis. Tilefnin eru því miður næg á markaðnum. En við erum þó að stíga hér gríðarlega stór skref til að efla bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið og það hlýtur að vera fagnaðarefni allra þingmanna.