135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:18]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er upplýst á fundum viðskiptanefndar á starfsstöð Samkeppniseftirlitsins og í skýrslu sem þar var afhent að Samkeppniseftirlitið getur ekki í dag, getur ekki að meðtalinni þessari hækkun, sinnt þeim skyldum sem ríkisvaldið leggur á eftirlitið. Sú staðreynd liggur fyrir. Ég geri mér fulla grein fyrir og tók það fram í ræðu minni að fjárveitingar hafi verið auknar, en forsendur stofnunarinnar hafa verulega breyst og enn á næsta ári mun Samkeppniseftirlitið ekki geta sinnt því brýna verkefni að skoða fákeppni á Íslandi, fákeppni í matvöruverslun og á öðrum stöðum.

Ég vil bara nefna til viðbótar að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins eru 20, ef ég man rétt, á móti yfir 40 starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins. Ég vil líka halda því hér til haga vegna ummæla hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að innheimtar álagðar sektir í kjölfar rannsókna Samkeppniseftirlitsins hafa verið hærri á undanförnum árum en fjárframlög til stofnunarinnar.

Ég geri mér líka fulla grein fyrir því, hv. formaður viðskiptanefndar, að það gildir ólíkt um fjárhagslegan grundvöll þessara stofnana. Fjármálaeftirlitið sækir sínar tekjur til eftirlitsskyldra aðila, það er hárrétt, en það kveikir þá spurningu í mínum huga sem ég bið hv. formann að velta fyrir sér hvort ekki væri rétt fyrir Samkeppniseftirlitið að feta þá sömu leið að leggja eftirlitsgjaldið á fákeppnisaðilana í ljósi þeirra staðreynda sem blasa við og hafa verið í fréttum.