135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

hafnalög.

93. mál
[15:33]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum frá árinu 2003, breyting sem út af fyrir sig lætur ekki mikið yfir sér og er einhugur um það í samgöngunefnd að mæla með samþykkt þessa frumvarps. Mér finnst engu að síður nauðsynlegt við 2. umr. um málið að vekja aðeins athygli á nokkrum þáttum er lúta að starfsemi hafnanna og lagaumhverfi hafnastarfseminnar.

Eins og kemur fram hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni samgöngunefndar og framsögumanni, er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að skýra 3. tölul. 17. gr. gildandi hafnalaga varðandi geymslugjald á hafnarsvæðum þar sem tekinn er af allur vafi um það að geymslugjald megi innheimta fyrir geymslu vöru og gáma á hafnarsvæði hvort sem geymslan fer fram utan húss eða innan. Skiptar skoðanir hafa verið uppi um það hvernig túlka ætti ákvæði gildandi laga og ég tel jákvætt að skýra þetta með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar gildandi hafnalög voru til umfjöllunar á Alþingi veturinn 2002–2003 var sérstaklega tekist á um 17. gr. hafnalaga. Fulltrúar hafnanna í landinu gerðu verulegar athugasemdir við það hvernig 17. gr. var útbúin en í henni er mjög ítarleg upptalning á því hvaða gjöld höfnunum er heimilt að innheimta og sömuleiðis nákvæmlega skilgreint í hvaða verkefni einstök gjöld mætti nota. Þetta töldu hafnarstjórnir í raun og veru allt of ítarlega framsetningu vegna þess að það getur verið mjög erfitt að sundurgreina einstakar framkvæmdir með þeim hætti sem ákvæði 17. gr. krefjast hvað varðar innheimtu gjalda. Hafnarstjórnirnar litu svo á að líta bæri á hafnastarfsemina sem eina heild, það væri eðlilegt að skilgreina í lögum hvaða gjöld mætti leggja á en það væri nær útilokað að reka hafnirnar miðað við að þurfa að standa undir þeirri þröngu skilgreiningu sem lögin kveða á um.

Þrátt fyrir að bæði hafnirnar og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi á sínum tíma gert verulegar athugasemdir og lagt til að þessi grein yrði ekki samþykkt með þeim hætti sem lagt var til í þáverandi frumvarpi var hún engu að síður samþykkt svona á Alþingi og er þess vegna lög í dag. Ég tel að eitt af því sem þarf að endurskoða þegar lögin verða tekin til endurskoðunar sé 17. gr. Enda þótt í ákvæðum til bráðabirgða sé fyrst og fremst miðað við það að endurskoða ákvæði 24. gr., sem fjallar um ríkisstyrktar framkvæmdir, er það skoðun mín að það þurfi engu að síður að endurskoða fleiri þætti í þessari löggjöf, m.a. 17. gr., og ekkert óeðlilegt við það vegna þess að þegar lögin voru sett 2003 var um að ræða um verulega breytingu á öllu rekstrarumhverfi, starfsumhverfi hafnanna í landinu. Það er því ekkert óeðlilegt við það þegar komin er nokkurra ára reynsla af þeim lögum að þau séu endurmetin og endurskoðuð í ljósi þeirrar reynslu sem menn hafa þá aflað sér.

Við sjáum það í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að það reynist nauðsynlegt að breyta tímaákvæðum í bráðabirgðaákvæðum laganna hvað varðar styrkhæfar framkvæmdir vegna þess að hafnirnar hafa ekki verið í stakk búnar að uppfylla þær áætlanir eða þau áform sem samgönguáætlun gerði ráð fyrir um uppbyggingarhraða í höfnum til þess að nýta sér þann ríkisstyrk sem þar gafst. Það eru ýmsar ástæður fyrir því og það er rakið í umsögn Siglingamálastofnunar, sem fylgir þessu frumvarpi og er ágæt greinargerð þar, að þenslan í samfélaginu á undanförnum árum hafi m.a. leitt til þess að ekki hafi verið hægt að ráðast í allar þær framkvæmdir, bæði vegna skorts á verktökum en líka vegna þess að tilboð í verk hafa reynst mjög há og ekki hefur verið talið forsvaranlegt að ráðast í þau verk miðað við þau tilboð sem hafa borist. Það er ein ástæðan.

Önnur ástæða er sú að þegar breytingin var gerð á rekstrarumhverfi hafnanna og gjaldskrá hafna gefin frjáls var það ein af forsendunum sem lágu þar að baki að aflagjöldin mundu hækka verulega vegna þess að þeim var þá ætlað að standa undir stofnkostnaði í höfnum. Talið var að aflagjöldin, sem almennt höfðu verið um 1% af aflaverðmæti, þyrftu að fara upp í upp undir 2% af aflaverðmæti til þess að hafnirnar fengju þær tekjur á móti sem annars höfðu komið frá ríkinu. Ég held að það hafi verið nokkuð þokkaleg samstaða um að það væri eðlilegt að atvinnugreinin greiddi fyrir afnot af höfninni og uppbyggingu í höfninni sem atvinnugreinin fer fram á frekar en að allt kæmi úr ríkissjóði. Þetta var forsendan.

Síðan gerist þegar lögin eru komin til framkvæmda að hafnirnar eiga mjög erfitt með að fara með aflagjaldið upp undir 2% eins og var í raun og veru hin fjárhagslega forsenda fyrir breytingu á hafnalögunum. Það stafaði m.a. af því að sumar hafnir, m.a. á suðvesturhorninu, töldu sig geta lækkað hafnargjöldin í samkeppni við hafnir vítt og breitt um landið. Þetta átti fyrst og fremst við um Hafnarfjörð og þar voru aflagjöldin lækkuð, ef ég man þetta rétt, það eru nokkur ár síðan þetta var. Það varð til þess að hafnir vítt og breitt um landið treystu sér ekki til að hækka aflagjöldin og þar af leiðandi fengu þær ekki þær tekjur sem voru forsendur fyrir breytingunni á hafnalögunum og þeirri ákvörðun að hætta með ríkisstyrki í hafnarframkvæmdum sem almenna reglu. Þetta var mjög bagalegt en við þetta búa hafnirnar enn þann dag í dag.

Þegar niðurskurðurinn í aflaheimildum bætist við núna, sem að sjálfsögðu kemur mjög illa við afkomu hafnarsjóða vítt og breitt um landið, má segja að það sé ekki úr mjög háum söðli að detta hvað varðar flestar hafnir landsins. Flestar hafnir landsins eru eingöngu fiskihafnir og staða þeirra fyrir var ekki mjög beysin en þegar við bætist aflasamdráttur hefur það eðlilega bein áhrif á afkomu hafnanna. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram og ég held að allir séu sammála um að koma þarf til móts við þessar þarfir hafnanna hvað þetta snertir.

Mig langar, virðulegur forseti, að vekja aðeins athygli á umsögn Hafnasambands Íslands um þetta frumvarp en þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hafnasamband Íslands telur jákvætt að lengja gildistíma ákvæða um styrkveitingar vegna framkvæmda í höfnum, úr ríkissjóði til ársloka 2010 og Hafnabótasjóði til 1. janúar 2011.

Breytingin er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar Íslands vegna skerðingar á aflaheimildum, en ekki var haft samráð við Hafnasambandið um þessar tillögur.

HÍ telur að nauðsynlegt hefði verið að hafa samráð um þessar og aðrar víðtækari aðgerðir sem eru til að bregðast við auknum rekstrarvanda hafna. Athygli er vakin á að samdráttur í þorskveiðiheimildum mun valda um 100 til 150 millj. kr. árlegu tekjutapi hafnanna, sem óhjákvæmilegt er að bregðast við með beinum framlögum ríkisins til hafna.

Stjórn HÍ bendir á minnkandi aflaheimildir í sjávarútvegi og samdrátt í sjóflutningum og leggur þunga áherslu á að flýta vinnu við endurskoðun 24. gr. hafnalaga nr. 61/2003 í samræmi við IV. lið ákvæðis til bráðabirgða í hafnalögunum, en greinin hljóðar þannig:

„Ráðherra skal í síðasta lagi árið 2010, eða fyrr ef nauðsyn krefur, skipa sérstaka skoðunarnefnd sem hafi það hlutverk að meta hvort töluleg viðmið 24. gr. þurfi breytinga við í ljósi reynslunnar.“

Stjórnin mælir með samþykkt frumvarpsins.“

Í umsögn Hafnasambandsins sem er jákvæð og þar sem mælt er með samþykkt frumvarpsins er engu að síður vakin athygli á þessu með endurskoðun 24. gr. hafnalaganna og það sé mjög brýnt að flýta þeirri vinnu. Ég vil þess vegna fagna því að í nefndarálitinu, sem er samhljóða, er tekið undir þessi sjónarmið og nefndin áréttar að það sé brýnt að sú endurskoðun sem á að fara fram hefjist eins fljótt og verða má og ég er algjörlega sammála því.

Í umsögn Hafnasambandsins er líka vakin athygli á þeim vanda sem hafnirnar eiga við að glíma m.a. vegna samdráttar í þorskveiðiheimildum núna og talið er, samkvæmt skýrslu sem Hagfræðistofnun háskólans hefur gert um áhrifin af þessum aflasamdrætti, að það geti leitt til 100–150 millj. kr. tekjutaps hafnanna.

Í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir 250 millj. kr. framlagi til sveitarfélaganna á ári í þrjú ár og eru hafnirnar inni í þeirri tölu. Ef tekjutap hafnanna er um 150 milljónir tekur það stóran hluta af því framlagi sem átti að fara til sveitarfélaganna. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það kemur út fyrir sveitarfélögin, það er óvíst að hafnirnar muni fá þetta að fullu bætt miðað við þær fjárhæðir sem eru settar í þetta viðfangsefni.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég vildi bara vekja athygli á þessum þætti málsins og sögunni á bak við hafnalögin og sérstaklega ákvæðum í 24. gr. og 17. gr. þar sem gengið var út frá ákveðnum tekjuauka hafnanna þegar þessi lög voru sett og hann hefur ekki gengið eftir. Mér finnst því mjög brýnt að endurskoðun hafnalaganna verði flýtt og hún taki til fleiri þátta en einungis 24. gr. og það sé skoðað hvernig afkoma hafnanna hefur reynst á grundvelli núgildandi hafnalaga og hvort þau markmið sem menn settu sér hafa náðst. Hafi það ekki gerst er mikilvægt að ráða bót á því með því að fara yfir fleiri greinar laganna.