135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[16:04]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða umfjöllun um þessa þætti málsins. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að þegar vel er að verki staðið er mögulegt að hafa áhrif á Evrópuréttinn. Fyrir því eru mýmörg dæmi, jafnt úr aðildarríkjum sem öðrum ríkjum. Það er þó erfiðara fyrir okkur sem EES-ríki vegna þess hversu seint við komum iðulega að ákvörðunartöku með formlegum hætti.

Í þessu máli er mjög mikilvægt að sjá hversu góða raun það gefur þegar unnið er skipulega af hálfu stjórnvalda við undirbúning og tímanlega komið að málum. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að vinna í þá átt að þingið fái ríkari aðkomu að málum á mótunarstigi.

Það varðar brýna hagsmuni okkar ef flugsamgöngur verða felldar undir þetta. En ég er sammála hv. þingmanni að þó að breytingar sem koma utan frá hafi áhrif á mann eru það ekki rök fyrir því að standa fyrir utan heiminn heldur þurfum við þvert á móti að taka þátt í því með hnattrænum hætti og á evrópskum vettvangi með öðrum ríkjum að draga úr losun. Það hlýtur að vera verkefni okkar. Það felst engin mótsögn í því að verja réttmæta hagsmuni annars vegar og taka hins vegar virkan þátt í evrópsku samstarfi. Þvert á móti eru það tvær hliðar á sama peningnum.