135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[16:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er mikill ágreiningur á ferðinni í þessu tilviki þannig að það þarf ekki löng ræðuhöld um það, svör eða andsvör. Varðandi það að erfitt sé að hafa áhrif þá er það gamalkunnug umræða og auðvitað halda áhugasamir aðilar um inngöngu okkar í Evrópusambandið þeim rökum gjarnan á lofti.

Ég hef aðeins verið að fara yfir það í huganum hvort flestöll ef ekki öll nýlegustu dæmin vísi einmitt frekar í hið gagnstæða, að það sé í raun merkilega auðvelt að hafa áhrif ef menn eru vakandi og koma sjónarmiðum á framfæri nógu snemma eða koma þeim á framfæri meðan tími er til að taka við slíku. Við erum einmitt með nýleg dæmi í höndunum um að því hefur verið vel tekið að Ísland hafi gert vart við sig og komið sjónarmiðum sínum á framfæri, jafnvel í einhverju ferli innan Evrópusambandsins sem ekkert sérstaklega kemur til með að varða Ísland beint á næstunni og jafnvel á sviðum þar sem við erum undanskilin eins og á sviði sjávarútvegs, einfaldlega vegna þess að þá er því yfirleitt vel tekið ef um er að ræða málefnalega afstöðu og skynsamleg sjónarmið sem reidd eru fram.

Ég verð því að segja eins og er að mér finnst reynslan frekar vera að sýna okkur hið gagnstæða að undanförnu. Ef við vitum hvað er á ferðinni, vitum hvað er í undirbúningi, förum yfir það hvort ástæða sé til þess fyrir okkur að koma þar einhverju að og gerum það með uppbyggilegum og málefnalegum hætti og á skynsamlegan hátt þá sé því yfirleitt fremur vel tekið. Til þess þarf að tryggja að þessi vöktun sé alltaf til staðar og í gangi og ég er þeirrar skoðunar og hef held ég sagt það áður úr þessum ræðustóli að auðvitað er það tímaskekkja að Alþingi sjálft skuli ekki hafa viðveru í Brussel, hafa þar sinn fulltrúa, starfsmann t.d., sem væri hluti af áhöfn nefndasviðs og heyrði undir utanríkismálanefnd.