135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Ég verð því miður að gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Það er sko sannarlega athugasemd við fundarstjórn forseta því að þannig háttar til að 15. og 16. dagskrármál fundarins eru mál úr utanríkismálanefnd þar sem ég er með fyrirvara í nefndaráliti. Engu að síður gerðist það á fundinum rétt áðan að hoppað var yfir nokkur mál í dagskránni og umræða hafin um málin án þess að mér væri gert aðvart og umræðu lokið um 15. dagskrármálið án þess að ég, með fyrirvara í þingskjali, sem samkvæmt hefð þýðir að menn geri grein fyrir fyrirvara sínum, kæmist til umræðunnar og var ég þó á skrifstofu minni með kveikt á sjónvarpinu.

Ég mótmæli því, það er ekki í samræmi við góðar venjur að gera fyrirvaralausar breytingar á dagskrá og standa svo glöggt að afgreiðslu mála að menn komist ekki til að taka þátt í umræðum í samræmi við það sem þingskjöl boða að verði gert. Ég hef ekki vanist því að ef menn eru annaðhvort framsögumenn meirihlutaálita eða minnihlutaálita eða ef nefndarmenn undirrita með fyrirvara, sé þeim ekki gert viðvart áður en mál eru tekin á dagskrá, hvað þá að umræðu um þau sé lokið áður en kannað er hvort viðkomandi ætli að gera grein fyrir áliti sínu.

Ég harma þess háttar fundarstjórn, mér finnst hún ekki vönduð og ekki sanngjarnt að koma fram við menn með þessum hætti. Þó að mikið liggi á má ekki fara svo geyst í sakirnar að menn hreinlega missi af rétti sínum þótt þeir séu á svæðinu og jafnvel að fylgjast með umræðunum, þótt í gegnum sjónvarp sé. Ég er sæmilega röskur maður en það tók mig þó það langan tíma að hlaupa yfir planið úr Vonarstræti 12 að umræðu um 15. dagskrármálið var lokið þegar ég kom hér í salinn.

Ég mótmæli því og hefði talið eðlilegast að forseti hefði beitt valdi sínu til að opna umræðuna aftur og gera okkur, sem ætluðum að tala í málinu, hinu fyrra af tveimur, 15. dagskrármálinu, um innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins, kost á að ræða það. Ég neyðist því til að gera athugasemd við fundarstjórn.