135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:38]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (frh.):

Herra forseti. Ég held þá áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni áðan. Ég sagði að fram hefðu farið þjónustukaup, kaup á verkum og kaup á vörum, og nefndi í því samhengi að einn stór aðili hefði setið að verkunum og fyrir lægi vitneskja um að útboð hefði ekki farið fram á þeim öllum. Slíkt kallar á að fjárlaganefnd geri aðfinnslur og fyrirvara í fjáraukalögum vegna þess að sá liður er þar inni, kostnaðurinn er þar inni. Jafnframt kallar það á, herra forseti, að umræðu um málið verði frestað svo að fjárlaganefnd gefist tóm til að koma fyrirvörunum að í tillögum sínum.

Það er fleira sem kallar á fyrirvara og aðfinnslur sem er ef til vill heldur alvarlegra mál en það sem ég hef nú nefnt. Það er líka í samræmi við meginregluna um góðar reikningsskilavenjur sem ber að fara eftir. Nú er upplýst að kaupsamningar þeir sem gerðir voru um eignirnar og lagðir voru fram fyrir fjárlaganefnd til skoðunar en ekki afhendingar eru óundirritaðir og óstaðfestir. Á slíkum óundirrituðum, óstaðfestum gögnum byggir maður ekki tölur, hvorki í fjáraukalögum né í fjárlögum. Þannig get ég ekki afgreitt mál og ég vísa enn í regluna um góða reikningsskilavenju. Allir löggiltir endurskoðendur og aðrir þeir sem koma nærri bókhaldi skilja það. Skjölin eru með öðrum orðum óbókunarhæf, þau geta ekki myndað traustan grundvöll í bókhaldi. Slíkum skjölum mundu skattyfirvöld hafna ef þau kæmu fram í bókhaldi fyrirtækja.

Einnig kom fram í þessum óundirrituðu og óstaðfestu kaupsamningum, sem vakti verulega athygli mína, að heimild er til að Háskólavellir og Base geti skipt félögunum upp í fleiri einkahlutafélög, að mér skilst. Þar með geta þeir skipt eignum á milli einkahlutafélaga og góssinu á milli fleiri aðila. Um það ættu að sjálfsögðu að vera aðfinnslur og fyrirvari í fjáraukalögum.

Ég varpa einnig fram efasemdum mínum sem lúta að því að um einkahlutafélag er að ræða, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Ég veit ekki til þess hvort yfir höfuð er rétt að færa eignir, skuldir og gjöld inn í fjáraukann og fjárlög með þeim hætti sem stefnt er að. Það er mikið íhugunarefni og skoðunarefni fyrir fjárlaganefnd. Taka þarf af öll tvímæli í því sambandi og ég spyr: Á ekki að færa verðmæti eignarhlutarins til eigna en ekki eins og um hverja aðra ríkisstofnun sé að ræða?

Ég vil nefna annað varðandi málsmeðferð þróunarfélagsins á eignum, þá staðreynd að ekki skuli hafa farið fram útboð á eignunum eins og lög standa til, það kallar á aðfinnslur og fyrirvara í fjáraukalögum. Í lögfræðiáliti dagsettu 19. janúar 2007, undirrituðu af Þórarni V. Þórarinssyni héraðsdómslögmanni, er komist að þeirri niðurstöðu að þróunarfélagið hafi sjálft mátt höndla með og selja eignirnar. Það tel ég reyndar ganga gegn texta, bæði laganna um Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli og gegn þjónustusamningi fjármálaráðuneytisins við þróunarfélagið. Lögmaðurinn kemst að niðurstöðu sem ég er ósammála en gangi maður út frá því að hún sé rétt gildir einu um að þróunarfélaginu bar að fara að útboðsreglum við söluna.

Að þeirri niðurstöðu kemst lögmaðurinn og segir, með leyfi herra forseta:

„Samkvæmt framansögðu er hafið yfir allan vafa að ÞK hefur fulla heimild til þess sjálft að ráðstafa með sölu eða leigu þeim eignum sem félagið hefur fengið til umráða á Keflavíkurflugvelli að virtum þeim almennu og sérstöku skilmálum sem samningurinn tilgreinir.“

Skilmálarnir í samningnum eru útboð og hæstv. fjármálaráðherra staðfesti í ræðu á þinginu 20. nóvember sl. að verkið væri útboðsskylt.

Við það á auðvitað að gera athugasemd í fjáraukalögum. Einnig á að gera athugasemd í fjáraukalögunum við hæfi til að ráðstafa eignunum eða réttara sagt vanhæfi sem er upplýst bæði samkvæmt 1. tölulið 3. gr. stjórnsýslulaga og 6. tölulið sem er hin almenna regla, sumir kalla ruslakistuvanhæfisreglu. Ef menn geta ekki litið hlutdrægnislaust á málið þá er það vanhæfi. Ljóst er að stjórnarmaður í einu félagi, þróunarfélaginu, getur ekki selt sjálfum sér sem stjórnarmanni í öðru félagi eignir. Það lýtur að 1. gr.

Ég vík að því sem snertir fyrirséðan kostnað og fyrirséð gjöld. Komið hafa fram ábendingar í ræðum hv. þingmanna um að það séu fyrirséð gjöld sem ekki er tekið tillit til í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég minni á í því sambandi að þegar um slík gjöld er að ræða er ekki heimild til að taka þau inn í fjáraukalögin, til þess þarf brýna nauðsyn. Í því sambandi minni ég á Matís þar sem er 150 millj. kr. aukafjárveiting á fjáraukalögum sem ekki stenst og upplýst er af starfsmanni fjármálaráðuneytisins að gjöldin hafi verið fyrirséð. Ekkert gjald má greiða án heimildar, það er meginreglan.

Ég geri einnig að umtalsefni þá liði í fjáraukalögum sem snúa að hermálum. Ratsjárstofnun 280 milljónir, Norðurvíkingur 45 milljónir, Öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli 45 milljónir, Loftflutningar fyrir NATO 200 milljónir, Ársþing þingmannanefndar NATO 155 milljónir. Það er allt saman kostnaður sem ég tel að hafi verið heimildarlaust að taka inn á fjáraukalög, hann átti að vera á fjárlögum á grundvelli þeirra grunnákvæða að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði án heimildar. Að mínu mati kallar það einnig, bæði Matíss-málið og það sem ég nefndi varðandi hermálin, á aðfinnslur og fyrirvara í fjáraukalögum.