135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir. Ég get alveg játað á mig að kannski hefði ég getað sparað eitthvað af þessum spurningum ef ég hefði verið betur lesinn í nefndaráliti meiri hlutans. En það vill nú fara svo á þessum síðustu og annasömustu dögum að maður er ekki alltaf þaullesinn í öllum pappírum sem hingað rignir yfir mann. En að hluta til bætti hv. þingmaður við upplýsingum og ég er þakklátur fyrir það.

Þá er þetta nákvæmlega eins og ég hafði ímyndað mér að það sem Ríkisendurskoðun er að staðfesta er ekkert nema samlagningin, að þetta sé út af fyrir sig rétt tala. Ég sakna þess að það skuli þá ekki hafa verið farið betur yfir það þó svo að talan kunni að vera rétt, en er samt grundvöllur fyrir því að bókfæra hana svona? Inn í fjáraukalög? Á að gera það? Er það ekki sjálfstætt álitamál jafnvel þó að upphæðin sé rétt miðað við það sem fyrir liggur og sjá má út frá kaupsamningum og sölusamningum og bókhaldi fyrirtækisins? Ég hef ekki enn sannfærst um að menn séu örugglega með fast land undir fótum í þeim efnum. Þetta er allt afar skrýtið og byggir þá á því að fjármálaráðuneytið hafi óskað eftir endurskoðun á samningnum. Henni er ekki lokið. Sú endurskoðun hefur ekki farið fram.

Menn eru þá náttúrlega að gefa sér að í þeirri endurskoðun verði sú niðurstaða sem aftur geri mögulega gagnvart fyrirtækinu þessa miklu bókfærslu á arðgreiðslu í ríkissjóð, því það hlýtur þetta að teljast, að félagið geti þá innt af hendi þessa greiðslu eða vilji gera það.

Ég hefði líka gjarnan viljað ræða hlut sem ég hafði ekki tíma til í dag sem er spurningin um það hvort menn ætli þá ekki að fara að manna sig í það mikla hreinsunarstarf sem vitað er að fyrir liggur á Keflavíkurflugvelli og ég hef lýst áhyggjum af að menn lendi í hálfgerðri útideyfu og mér virðist ekki aðaláhugi á að grípa til.

Auðvitað má einu gilda hvaðan fjármunirnir koma, þeir geta þess vegna komið aftur úr ríkissjóði. Varðandi (Forseti hringir.) betrumbætt vinnubrögð þá tekur maður auðvitað viljann fyrir verkið og vonar hið besta en ég fékk ekki skýrt svar fannst mér hvað það varðar hvort hér má vænta fjáraukalagafrumvarps að vori.