135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ríkisreksturinn í sjálfu sér og staðan hér sé að öllu leyti sambærileg við sveitarstjórnir. Það er auðvitað sumpart og kannski orðinn minni munur en áður var á fjárhagsáætlanagerð og vinnubrögðum stærstu og öflugustu sveitarfélaganna og ríkisins. Sá er líka munur á að starf Alþingis er lotuskiptara en sveitarstjórna. En við erum nú hér við störf yfirleitt fram á vormánuði og þar af leiðandi er ekkert í veginum fyrir því að fara þá í þá endurskoðun, sem við getum kallað það, sem væri fólgin í fjáraukalagafrumvarpi ef þegar liggja fyrir tilefni til breyttra fjárheimilda innan fjárlaga ársins.

Ég held að aðhald Alþingis aukist við það. Ég held að það sé ein af leiðunum sem er fær til þess að halda betur utan um fjárstjórnarvaldið og missa minna af því frá Alþingi í formi framsals til framkvæmdarvaldsins sem teygir og togar rammann í allar áttir eins og við höfum orðið vitni að, bæði með einfaldlega pólitískum ákvörðunum, undirskrift undir samninga með og án fyrirvara svo ekki sé nú minnst á hvernig heimildargreinar hafa verið notaðar hér eins og ég fór yfir í máli mínu.

Ég efast ekkert um að Ríkisendurskoðun vinnur vel með Alþingi og það hefur hún alltaf gert varðandi fjárlagaafgreiðslu og eftirlit sem auðvitað er hinn eðlilegasti hlutur. Það er auðvitað þannig að Alþingi felur Ríkisendurskoðun í raun talsvert af því verki sem Alþingi ber ábyrgð á samkvæmt stjórnarskrá.

Við skulum líka muna eftir því, það þurfa allir aðilar að átta sig á því, líka Ríkisendurskoðun, að það er Alþingi sem hefur valdið. Það er Alþingi sem er falið þetta verkefni með stjórnarskrá. Lögin um Ríkisendurskoðun færa bara tiltekinn hluta af þeirri ábyrgð og þeim verkefnum frá þinginu til Ríkisendurskoðunar sem embættis undir Alþingi. Hvernig var þetta áður? Þá voru skoðunarmenn ríkisreikninga og fleiri tæki sem Alþingi hafði í sínum (Forseti hringir.) höndum til að reyna að uppfylla þessi stjórnarskrárákvæði.