135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að reyna að komast inn í þessa umræðu, bæði við 1. umr. og við 2. umr., en einhvern veginn hafa örlögin hagað því svo, eins og oft gerist, að umræðan hefur dregist á langinn og ég hef verið farin að sinna öðrum störfum og aldrei komist í ræðustól. Ég hef því ekki getað haldið almennilega þræði í þessari umræðu enda hafa aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verið hér til að sinna því hlutverki. Engu að síður langar mig í blálokin á umræðunni að segja nokkur orð um þau atriði sem ég hef hnotið um í þeim skjölum sem ég hef lesið tengd málinu, og er þá að tala um nefndarálitin og breytingartillögur frá meiri hlutanum. Ég mun nú stikla á stóru í þeim atriðum sem mér finnst að enn verði að nefna í umræðunni.

Fyrst verður fyrir mér bls. 6 í frumvarpinu en þar er um að ræða ýmsar heimildir sem verið er að veita framkvæmdarvaldinu og við 2. umr. bættust tvær heimildargreinar inn í þá upptalningu. Annars vegar er það heimild til að leigja hentugt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands, sem er kannski ekki á réttum stað núna, þar sem hlutirnir hafa breyst síðan heimildin var sett inn. Við sem höfum fylgst með fjárlagaumræðunni vitum að það er ljóst að ekki verður leigt neitt nýtt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands á næsta ári. Þær fjárheimildir, þær 80 millj. kr. sem voru upphaflega í frumvarpi til fjárlaga 2008, voru teknar út vegna þess að búið er að gefa út þá yfirlýsingu að þetta húsnæði verði ekki leigt á næsta ári. Þannig að ég tel að þessi heimild sem er hér í fjáraukalögum fyrir 2007 sé ekki á réttum stað ef ekki á að fara í að ganga frá þessum leigusamningum á næsta ári hvort sem er.

Hins vegar er það heimild sem varðar Kárahnjúkavirkjun. Heimild er gefin til að ganga til endanlegra samninga við Landsvirkjun um vatnsréttindi ríkisins við Kárahnjúka á grundvelli úrskurðar matsnefndar um ákvörðun bóta vegna réttindanna. Það er kannski eins gott að sú heimildargrein kemur hér inn því að við teljum að heimildir ríkisins til að afsala vatnsréttindum í Þjórsá til Landsvirkjunar hafi verið á veikum grunni reistar og þar hafi skort lagaheimildir.

Ein heimildargrein til viðbótar vekur athygli mína og mig langar til þess að hafa nokkur orð um hana. Það er heimildin til að kaupa hlut í Vistorku hf. Ég hef ekki heyrt á neinum ræðumanna, sem ég hef hlustað á í þessum umræðum, að þetta hafi verið nefnt, en þingheimi til upplýsingar þá er Vistorka hf. eignarhaldsfélag um hlut íslenskra fyrirtækja í Íslenskri nýorku ehf. en verkefni Íslenskrar nýorku ehf. miða að því að nota vetni sem orkubera í stað olíu eða annarra kolefnisorkugjafa.

Þessar upplýsingar er að finna á heimasíðu Nýsköpunarsjóðs og vekja athygli mína fyrir það að ríkið virðist ætla að fara að kaupa í þessu fyrirtæki, Vistorku — ég hefði haldið að við hefðum þurft að hafa einhver frekari orð um það, þetta er kannski ekki alveg fjárfesting sem liggur beint við fyrir ríkið að fara í. Sjálfbær orkustefna er áhugamál þeirrar sem hér stendur og ég hef þar af leiðandi áhuga á að Íslensk nýorka ehf. gangi vel en mér finnst það út úr korti að eignarhaldsfélagið sem það fyrirtæki tengist, Vistorka hf., skuli eiga að vera í ríkiseign og það séu óskilgreindir hlutir í því eignarhaldsfyrirtæki sem á að heimila framkvæmdarvaldinu að kaupa. Við þetta vildi ég gera athugasemd, hæstv. forseti.

Af því að ég nefndi Náttúrufræðistofnun Íslands og húsnæðismál hennar langar mig til að fara fáeinum orðum um þann hlut sem Náttúrufræðistofnun Íslands fær í þessu fjáraukalagafrumvarpi en það eru annars vegar 6 millj. kr. til almenns rekstrar og hins vegar 3 millj. kr. til bifreiðakaupa.

Ég geri sérstaklega að umtalsefni Náttúrufræðistofnun Íslands vegna þess að ég orðaði það í ræðu minni í fjárlögunum fyrir örfáum dögum að það væri siður ríkisstjórnarinnar að rétta halla Náttúrufræðistofnunar Íslands í fjáraukalögum. Eftir því sem ég best mundi þá ætti að gera það líka í ár. Þegar ég fer síðan að rifja upp það sem stendur í fjáraukalagafrumvarpinu kemur í ljós að ekki á að gera það núna. Þær 6 millj. kr. sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu eru ekki nema örlítið brot af þeim fjármunum sem Náttúrufræðistofnun Íslands þarf til að komast á þann núllpunkt sem hún hefur þó venjulega fengið að vera á undanfarin ár. Ég hefði því talið að á því hefði þurft að koma skýring hvers vegna Náttúrufræðistofnun Íslands fær ekki einu sinni þann skerf sem henni hefur venjulega verið réttur á undanförnum árum til þess að geta hafið nýtt starfsár sæmilega örugg um að það sjái fyrir endann á hallarekstrinum.

Mér þykir þetta líka athyglisvert í ljósi þeirra yfirlýsinga sem ríkisstjórnin hefur gefið og gerði í samstarfssamningi sínum og í ljósi yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra, að hér eigi að fara að gera einhverja gangskör að því að klára vistkortagerð og skráningu lífríkisins. En það er greinilegt að svo er ekki. Það er engin leiðrétting hér til staðar fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands sem þó ber hitann og þungann af þessu verkefni.

Náttúrufræðistofnun er hins vegar gert, fyrir þær 6 millj. kr. sem hún fær í fjáraukalögum, að vera milliliður fyrir tvær stofnanir aðrar. Í skýringartextanum með þessum lið er gert ráð fyrir að veittar séu 3 millj. kr. til gróðurkortagerðar á Vestfjörðum en hún á ekki að vinnast af Náttúrufræðistofnun Íslands heldur Náttúrustofu Vestfjarða. Náttúrufræðistofnun Íslands á að vera milliliður, millifjárveitingaraðili, yfir í Náttúrustofu Vestfjarða sem þó hefur sjálfstæðan fjárlagalið. Ég spyr: Hvað æfingar eru þetta alltaf? Þetta er nákvæmlega það sama og ég gagnrýndi í fjárlagafrumvarpinu í tengslum við það að Þjóðminjasafnið er gert að millilið fyrir fjöldann allan af verkefnum sem fjárlaganefnd ákveður að fara í, verkefnum sem koma Þjóðminjasafninu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hvers vegna eru hlutirnir ekki bara hreinir og beinir og fjárheimildin sett á þá stofnun eða það verkefni sem henni er ætlað? Náttúrustofa Vestfjarða á að fá þessar 3 millj. kr. og ég sé ekkert eftir því að hún fái það en Náttúrufræðistofnun Íslands á ekki að þurfa að vera milliliður í þeirri greiðslu.

Síðan er gert ráð fyrir 3 millj. kr. fjárveitingu, það eru seinni 3 milljónirnar af þessum 6, til að efla fuglarannsóknir og fuglavöktun á Vestfjörðum og Náttúrufræðistofnun Íslands er einnig ætlað að semja um það verkefni við Náttúrustofu Vestfjarða. Allar þær 6 millj. kr. sem settar eru á Náttúrufræðistofnun Íslands eiga því að renna til Náttúrustofu Vestfjarða. Ég spyr og vil fá svör við því: Hvers vegna eru þær ekki þar?

Í þessu sambandi má líka hafa orð á því að aðgerðir af þessu tagi tengjast að hluta til mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskafla. Enn eina ferðina rekur maður sig á að alla áætlunargerð vantar og alla undirbyggingu þeirra aðgerða. Ég sakna þess að við skulum ekki, hvorki í fjáraukalögunum né í umræðunni um fjárlögin, hafa getað farið í hina heildstæðu áætlun ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í þorskafla.

Svo að ég ljúki máli mínu varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands þá er gert ráð fyrir 3 millj. kr. til þess að stofnunin geti keypt sér nýjan bíl í stað bifreiðar sem eyðilagðist í veltu fyrr á þessu ári — 3 millj. kr. í bifreið fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands, sem eðli málsins samkvæmt fer ekki á Yaris upp á hálendi Íslands heldur þarf eflaust kraftmeiri bifreið sem getur farið fjallvegi. Ég spyr: Hvernig ætlar fjárlaganefndin Náttúrufræðistofnun Íslands að komast ferða sinna á bifreið sem kostar 3 millj. kr.? Já, ég er ekkert hissa þó að þingmenn hlæi. Þetta er eins og hver annar brandari.

Fjárlaganefnd á ekki að komast upp með að gera svona hluti. Ef það er raunverulega ætlunin að Náttúrufræðistofnun Íslands fái ökutæki sem hún getur notað til rannsókna sinna þá kostar það meira en 3 millj. kr. Og stofnunin er ekki aflögufær, hún getur ekki borgað þær milljónir sem upp á vantar svo að hægt sé að kaupa ökutæki sem kemst upp um fjallvegi, ég átel hv. fjárlaganefnd fyrir það.

Ég tel einnig fyllstu ástæðu til að spyrja nánar út í, kannski ekki á þessum vettvangi, ég geri ekki ráð fyrir að fá nein sérstök svör við því núna, það að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir heimild til að flytja 96 millj. kr. af viðfangsefninu Viðhald í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum yfir á almennan rekstur Umhverfisstofnunar. Skýringin er sú að fjárveitingar til viðhaldsverkefna hafi verið umfram bókfærð útgjöld á umliðnum árum. Safnast hafi upp afgangur á meðan halli hefur verið í almennum rekstri. Ég spyr: Hvernig má það vera að afgangur hafi safnast upp, kannski allt upp í 96 millj. kr., á fjárlagaliðnum sem ætlaður er til að viðhalda fjölförnum ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum?

Menntamálanefnd hefur fengið umsóknir frá fjölda sveitarfélaga sem segja okkur að aðsókn að friðlýstum svæðum sé alltaf að færast í vöxt og ófremdarástand hafi skapast vegna þess að Umhverfisstofnun geti ekki fjármagnað kamra og það sem nauðsynlegt er að gera til að taka á móti fjölda ferðamanna. Á sama tíma veitum við ég man ekki hve margar milljónir, gott ef þær skipta ekki einhverjum tugum eða fara jafnvel yfir hundraðið, til Ferðamálaráðs. Ferðamálaráð á að fá fjármuni til að viðhalda fjölsóttum ferðamannastöðum og þingmenn vita sem er að erfiðlega hefur gengið fyrir Umhverfisstofnun að ná samkomulagi við Ferðamálaráð um ráðstöfun þess fjár. Ferðamálaráð vill ráðstafa fjármunum sem það fær á fjárlögum út frá eigin höfði og ég geri ekki athugasemd við það í sjálfu sér. En mikið væri gott fyrst Umhverfisstofnun er fjársvelt að þessu leyti, eða ég hef haldið það, að menn settust niður og næðu einhvers konar samkomulagi um hvernig verja skuli þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar.

Mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir að af þessum kostnaðarlið skuli hafa verið afgangur eða umfram bókfærð útgjöld, miðað við þær fréttir sem við höfum fengið í nefndinni nú á síðustu mánuðum um ástand hinna friðlýstu svæða og fjölförnu ferðamannastaða.

Hæstv. forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um endurbætur menningarstofnana. Í fjáraukalagafrumvarpinu er óskað eftir í heildina, svo að ég fari nú með þetta rétt — undir liðnum Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður eru 25 millj. kr. í endurbætur menningarstofnana, í tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í Reykjavík eru settar 114 millj. kr., Þjóðleikhúsið fær 130 millj. kr. og Menningarhús 85 millj. kr. Í heildina eru 355 millj. kr. ætlaðar í fjáraukalögunum í viðhald og stofnkostnað vegna menningarstofnana.

Mig langar að gera að umtalsefni Þjóðleikhúsið þar sem óskað er eftir 130 millj. kr. framlagi svo að unnt verði að ljúka utanhússviðgerðum. Það er fagnaðarefni að sjá verkpallana fara af Þjóðleikhúsinu og sjá glæsilega bygginguna, sem er hluti af okkar dýrmæta menningararfi frá síðustu öld, koma í ljós. Ég sé ekki betur en þar hafi verið unnið fagmannlegt verk. Ég veit að það hefur farið talsvert fram úr öllum áætlunum en veit líka að þeim áætlunum sem gerðar voru í upphafi, áður en farið var í framkvæmdir við húsið, var afar ábótavant.

Það er mergurinn málsins, hæstv. forseti, varðandi viðhald og stofnkostnað við menningarstofnanir okkar og þær nauðsynlegu viðgerðir sem þurfa að fara fram á húsum sem hefur ekki verið haldið við í 50 ár eða meira. Forsendan fyrir því er sú að fyrir liggi áætlanir um verkið, tímaáætlun og kostnaðaráætlun. Í tilfelli Þjóðleikhússins lá slíkt ekki fyrir og ekki heldur þegar Þjóðminjasafn Íslands var gert upp. Sú endurbygging heppnaðist líka vel en við munum öll sprengingarnar sem urðu þegar við áttuðum okkur á því hvað sú endurbygging var dýr.

Það er skoðun mín að Þjóðleikhúsið þurfi að ganga í endurnýjun lífdaga og að sú endurfæðing þurfi að vera glæsileg. Ráðleggingar mínar til hv. fjárlaganefndar eru því á þann veg að gangskör verði gerð að því að klára áætlanir um endurbyggingu Þjóðleikhússins, í þeim felst ekki það eitt að ganga þurfi frá húsinu yst sem innst heldur hafa líka lengi legið fyrir byggingaráform vegna hússins. Húsið er reist eftir teikningum sem eru gamlar, þær eru frá 1930 eða þar um bil. Þarfir leikhúss á borð við Þjóðleikhúsið eru langt frá því að vera í einhverjum tengslum við þær hugmyndir sem uppi voru þegar húsið var byggt, og menn hafa vitað í áratugi að leysa þarf rýmisvandamál Þjóðleikhússins. Ég veit til þess að uppi eru um það áform og við höfum fengið örlitla kynningu á þeim áformum í menntamálanefnd reyndar ekki á þessum vetri heldur í fyrra.

Ég hvet hv. fjárlaganefnd og hv. formann hennar, sem hefur sagt hér aftur og aftur að hann vilji vandaðri vinnubrögð — ég treysti því og trúi að við eigum eftir að sjá einhverja breytingu — til að skoða þær áætlanir sem Þjóðleikhúsið hefur varðandi uppbyggingu og endurbyggingu. Ég hvet til þess að gerð verði áætlun og kostnaðargreining þannig að Þjóðleikhúsið viti á hverju það má eiga von á næstu árum en ekki sé verið að bæta því hundruða milljóna útlagðan kostnað vegna viðgerða í fjáraukalögum. Stofnunin hefur þurft að velta þessu á undan sér, taka þetta frá rekstri og það hefur sett hinni listrænu starfsemi verulegar skorður. Ég hvet til þess að við vinnum almennilega áætlun sem Þjóðleikhúsið getur unnið eftir og tekin verði um það pólitísk og meðvituð ákvörðun í okkar ranni að farið verði í þessa uppbyggingu, að Þjóðleikhúsið verði næsta menningarstofnun sem rís úr öskustónni og endurfæðist á sömu nótum og Þjóðminjasafnið fyrir skemmstu.

Að lokum, hæstv. forseti, langar mig að segja nokkur orð um háskólasetrin sem fá hér talsverða fjármuni. Það er eðlilegt að þau fái í sinn hlut eitthvað af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í aflaheimildum, ég geri ekki athugasemdir við það. Ég tel að samstaða sé um það hér á Alþingi að gera vel við háskólasetrin og koma þeim vel á legg. En ég geri sömu athugasemd varðandi þau og svo margt annað að þar skortir áætlun um uppbyggingu. Þar skortir að Háskóli Íslands hafi fengið, í samvinnu við forstöðumenn háskólasetranna út um land, að sýna okkur hvert stefnir í þessum efnum. Ég þykist vita að þessi setur og Háskóli Íslands þar með geti í sjálfu sér lítið sem ekkert hreyft sig fyrr en þeir sjá að einhverjir fjármunir séu til staðar. Þetta hefur verið skammtað naumt og skammtað úr hnefa og eins og nú í gegnum fjáraukalög.

Ég álít því að stofnunum sé enginn greiði gerður með þessu háttalagi. Þessi veikburða háskólasetur — ég veit að fólkið sem starfar þar hefur þær hugsjónir og þann kraft að það á eftir að efla þessi setur, og það hefur hugmyndir og hugsjónir um að gera þau að öflugum máttarstólpum mennta vítt um landið. Þetta fólk á það skilið frá okkur að hugsjónir þeirra og áætlanir séu settar niður á blað og við hér í þessum sal blessum þær. Það séu teknar um það ákvarðanir hvaða framtíð við sjáum fyrir viðkomandi háskólasetur og hvernig við sjáum tengsl þeirra við Háskóla Íslands, sem er þeirra móðurstofnun, þetta landslag þarf að teikna upp þannig að fjárveitingarnar geti verið í samræmi við þær áætlanir sem unnið er eftir.

Hæstv. forseti. Svo er fjöldinn allur af liðum hér sem mér finnst ekki eiga heima á fjáraukalögum og um það er búið að segja mjög margt. Það allra síðasta sem ég vil segja varðar Orkustofnun. Sótt er um 55 millj. kr. fjárveitingu til grunnrannsókna á veðurfari, öldufari og straumum á fyrirhuguðu olíuleitarsvæði, Drekasvæðinu á Jan Mayen-hrygg. En rannsóknirnar eru til undirbúnings, að því sagt er í frumvarpinu, útgáfu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæðinu. Fram kemur að stefnt sé að því að hægt verði að bjóða út slík sérleyfi í september 2008. Einnig kemur fram að kaupa þurfi til þessara rannsókna alls kyns tæki, öldumælinga- og straummælingadufl og koma þurfi þeim fyrir á svæðinu áður en vetur skellur á, næsti vetur sem sagt.

Ég velti fyrir mér, þegar ég skoða þetta, skorti á umræðum um þá áætlun ríkisstjórnarinnar að fara í olíuleit úti á Drekasvæðinu við Jan Mayen. (Gripið fram í.) Ég bara spyr, hæstv. forseti: Hvað á það að þýða að slumpa tugum milljóna í gríðarlegt verkefni, risavaxið verkefni, sem enginn í þessum sal getur séð fyrir endann á eða hefur nokkra hugmynd um hvað komi til með að kosta? Ég spyr: Hefur íslenska ríkisstjórnin tekið pólitíska ákvörðun um að olíuiðnaður verði ein af grunnatvinnugreinum Íslendinga í nánustu framtíð? Það virðist vera, bæði á þessum fjáraukalögum og fjárlögunum, því að eina hækkunin til Umhverfisstofnunar á fjárlögunum eftir 2. umr. voru 5 millj. kr. vegna útgáfu starfsleyfisins á svæðinu við Jan Mayen.

Það er ekki forsvaranlegt að fara svona að gríðarlega umfangsmiklum málum, að búa þau bara til sisvona í fjáraukalögum. Það er enginn bragur á þessu, hæstv. forseti. Og síðan er Orkustofnun líka ætlað að takast á við djúpborunarverkefnið svokallaða. Hér eru 11 millj. kr. ætlaðar til að kosta hluta af vísindaþætti íslenska djúpborunarverkefnisins á fjáraukalögum og markmið þess verkefnis er að kanna hugsanlega nýtingu varma úr rótum háhitakerfa á allt að 5 km dýpi og virkja með því móti mun meiri orku úr háhitanum en áður hefur verið gert. Og vegna kostnaðarhækkana og endurskoðaðra áforma er nú áætlað að kostnaður ríkisins verði um 350 millj. kr. sem einkum falli til á árinu 2009–2010.

Ég spyr: Er þetta verkefni ekki á forræði og að frumkvæði orkufyrirtækjanna? Hvað eru menn að tala um samkeppnismarkað í raforkuframleiðslu ef ríkið ætlar svo að halda áfram að afla orkunnar og borga brúsann? Ég segi það hér fullum fetum, hæstv. forseti, að ef raforkufyrirtækin vilja fara í djúpborunarverkefni til að reyna að búa til meira rafmagn, þá geri þau það bara og afli til þess þeirra leyfa sem þarf hjá hinu opinbera og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um leyfi sem varða umhverfið. En við gerum þetta ekki svona, að búa til áætlun upp á hundruð milljóna króna sem við ætlum að færa orkufyrirtækjunum til þess að gera þeim kleift að vinna raforku á 5 km dýpi sem enginn veit hvort heppnast eða ekki. Raforkufyrirtækin hafa sagt og vita það sjálf að þetta er áhættusamt. En af hverju eiga þau ekki að taka áhættuna? Af hverju tökum við þá áhættu með skattpeningum borgaranna?

Hæstv. forseti. Þetta voru þær athugasemdir sem mig langað til að gera við fjáraukalagafrumvarpið. Margar þeirra hefðu átt kannski frekar átt heima við 1. eða 2. umr. en tækifærið gafst einungis nú við 3. umr. Ég vona að mér verði virt það til vorkunnar. Í öllu falli fannst mér nauðsynlegt að þetta færi í þingtíðindin og til hv. formanns nefndarinnar og varaformanns, sem sitja hér báðir og hlýða á mál mitt. Ég trúi því og treysti að þessar athugasemdir hafi náð eyrum þeirra og skili sér þá í breyttum og bættum vinnubrögðum.