135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:54]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt áframhaldandi innlegg í bílaumræðuna. Hafa verður í huga að vel getur háttað þannig til að einhverjir fjármunir komi á móti þeim 3 milljónum sem þarna er um að ræða, það geta vel verið tryggingabætur eða eitthvað slíkt. Við skulum skilja við umræðuna með þá frómu ósk í brjósti að starfsmenn stofnunarinnar komist sem flesta vegi á þeim farartækjum sem ríkissjóður leggur þeim til við sín miklu og vandasömu störf og óskum þeim allrar velgengni á því ferðalagi og sömuleiðis í vinnunni.

Varðandi Þjóðleikhúsið mun fjárlaganefndin kalla eftir upplýsingum á komandi ári um stofnanir og jafnframt verður kallað eftir áætlunum þeirra um uppbyggingu og er Þjóðleikhúsið ein af þeim stofnunum. Í því sambandi bendi ég á að við stöndum í gríðarlega miklum framkvæmdum í menningarmálum á svæðinu. Við byggjum tónlistar- og ráðstefnuhús og fyrir dyrum stendur gríðarleg uppbygging hjá Listaháskóla Íslands o.s.frv. Það er því mikið í pípunum og ber að hafa það í huga þegar þingmenn allra flokka, ekki síst þingmenn Vinstri grænna, ræða um þensluáhrif fjárlaganna sem fram undan eru.

Ég vil í lokin geta þess að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, er sammála áherslum sem fram komu í máli þess er hér stendur varðandi náttúrustofur og háskólasetur þannig að tiltölulega góð eining og sátt ríkja innan nefndarinnar um þau efni.